„Hættum að líta á bændur sem afætur“

Stjórnir SUS og SUF deila um búvörusamningana.
Stjórnir SUS og SUF deila um búvörusamningana. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna lýsir yfir furðu á ályktun Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hún segist fagna nýgerðum búvörusamningum milli samninganefnda landbúnaðarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og bænda.

Ályktun SUS: Þjónar hvorki bændum né neytendum

Í ályktun frá stjórn SUF segir að búvörusamningar séu mikilvægt efnahagsmál, bændur búi til mikil verðmæti í samfélaginu og spari þjóðinni gjaldeyri.

„Markmið samningsins er að skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri og landbúnaðinum í heild tækifæri til að auka verðmætasköpun og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins. Markmiðið er því ekki bara matvælaframleiðsla, heldur líka að halda landinu í byggð. Að halda landinu í byggð er ein lykilforsenda fyrir áframhaldandi blómlegri ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir í ályktuninni.

Ný verkefni treysti stoðirnar

Tekið er fram að í samningnum séu umtalsverðar breytingar gerðar á starfsskilyrðum bænda. Þar megi finna ný verkefni sem ætlað sé að treysta stoðir landbúnaðarins og ýta undir framþróun og nýsköpun.

„Er það meðal annars ástæðan fyrir því að samningurinn er til 10 ára. Í honum má þó finna tvö endurskoðunarákvæði, það fyrra árið 2019 og hið seinna 2023. Það eru því tækifæri í samningum til að breyta um stefnu ef þurfa þykir.“

Að lokum segir í ályktuninni að stjórnin telji SUS vega ómaklega að fjármálaráðherra og að ályktun sambandsins sé ósanngjörn atlaga að bændum.

Ósanngjörn atlaga að bændum

„Það sést vel á öllum tölum að framleiðsla á landbúnaðarafurðum er mikilvæg fyrir ríkissjóð. Verðmæti landbúnaðarafurða var um 51 milljarður árið 2014 og samkvæmt tölum Hagstofunnar starfa um 4000 manns við landbúnað og um 11000 störf tengjast landbúnaði með einhverjum hætti.

Hættum að líta á bændur sem afætur af samfélaginu og horfum á málin í stærra samhengi. Samkvæmt skýrslu OECD hafa útgjöld til landbúnaðar á Íslandi lækkað úr 5% af landsframleiðslu á tímabilinu 1986-88 niður í 1,1% á tímabilinu 2012-14. Íslenskur landbúnaður er ein af lykilatvinnugreinum þjóðarinnar og með nýjum samningum er hún tryggð sem slík til framtíðar.

Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna lýsir því yfir furðu með ályktun SUS og telur hana ósanngjarna atlögu að bændum. Einnig teljum við SUS vega ómaklega að fjármálaráðherra og fulltrúa hans í samninganefnd ríkisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert