Fundur borgarstjórnar með Reykjavíkurráði ungmenna í gær var líklega með þeim fjörlegri.
Á fundinum fluttu 8 fulltrúar úr Reykjavíkurráði ungmenna, samráðsvettvangi allra ungmennaráða sem starfa í borginni, tillögur um það sem að þeirra mati má betur fara í borginni.
Sjá frétt mbl.is: Vilja kynfræðslu í stað kynhræðslu
Áhorfendapallarnir í fundarsal borgarstjórnar voru þétt setnir og sköpuðust líflegar umræður eftir hverja tillögu.
Ilmur Kristjánsdóttir, varaborgarfulltrúi Bjartrar framtíðar, tók til máls þegar Kári Arnarsson, fulltrúi í Ungmennaráði Laugardals og Háaleitis hafði kynnt tillögu sína sem fjallar um að bjóða unglingum upp á bætt aðgengi að sálfræðiaðstoð.
Kári greindi frá dæmi úr sínu daglega lífi sem sýnir að þörf á aukinni sálfræðiaðstoð fyrir unglinga er brýn.
Ilmur sagði tillöguna afar þarfa og vísaði henni til velferðarráðs borgarinnar sem mun taka tillöguna til umfjöllunar. Þó svo að Ilmur hafi farið yfir tímann sem hún hafði gat hún ekki stillt sig og brast í söng, eins og sjá má frá mínútu 11 í myndskeiðinu.
Ilmur fetaði í fótspor Whitney Houston og flutti brot úr laginu The Greatest Love of All.
„I believe the children are our future. Teach them well and let them lead the way...“
Ljóst er að Ilmur trúir á ungu kynslóðina og framlag hennar í þjóðfélagsumræðunni.