Milestone-málið svokallaða er komið á dagskrá Hæstaréttar þann 7. apríl. Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu eftir að allir sakborningar voru sýknaðir í héraðsdómi í desember árið 2014.
Bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir voru í málinu ákærðir ásamt Guðmundi Ólasyni fyrir að hafa látið Milestone fjármagna kaup bræðranna á hlutafé systur þeirra, Ingunnar, í félaginu. Hafi verið með öllu óvíst frá hverjum, hvenær eða með hvaða hætti Milestone fengi fjármunina til baka.
Segir í ákærunni að með því að hafa fært sem eign á efnahagsreikning félagsins óljósar, munnlegar kröfur á hendur eignalitlu aflandsfélagi, Milestone Import Export, upp á tæpa 5,2 milljarða króna hafi ákærðu komist hjá því að fjármögnun hlutabréfakaupanna kæmi til lækkunar á bókfærðu eigin fé Milestone. Krafan var án trygginga og segir í ákærunni að hún hafi skapað félaginu verulega fjártjónsáhættu.
Með þessu hafi bræðurnir haldið fullum eignarráðum yfir félaginu, beint og í gegnum annað félag, og eignuðust þorra hlutafjár í Milestone, án þess að leggja fé til kaupanna og án þess að eigið fé félagsins minnkaði. Þrátt fyrir að hafa ekki lagt til neitt fé til að kaupa hlutina af systur sinni runnu allar arðgreiðslur Milestone á árunum 2006 til 2007 og um 98,4% af arðgreiðslum ársins 2008 til bræðranna, alls milljarður króna.
Þá voru endurskoðendurnir Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór C. Guðmundsson ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur við endurskoðun sína á ársreikningum Milestone og samstæðureikninga samstæðunnar fyrir árin 2006 og 2007. Þau, auk Hrafnhildar Fanngeirsdóttur, eru ákærð fyrir brot á lögum um endurskoðendur fyrir að hafa bætt inn í endurskoðunarmöppu lánasamningi á milli Milestone og Milestone Import Export til að láta líta út fyrir að hann hafi verið til staðar við gerð og endurskoðun ársreiknings fyrir árið 2006. Þá er þeim gefið að sök að hafa bætt við endurskoðunarmöppu Milestone eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta haustið 2009.