„Það er mér ljúft og skylt að biðja opinberlega afsökunar á því ef ég hef sært einhvern. Það var ekki ætlun mín en ég veit að ég get stundum verið hvatvís og þver. Ég vil biðja ykkur um að bera klæði á vopnin ef einhver eru og leita að því sem sameinar okkar frekar en sundrar. Okkur hefur verið falið mikið traust og í slíku trausti felst mikil ábyrgð.“
Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Pírataspjallinu á Facebook í kjölfar deilna á milli hennar og Ernu Ýrar Öldudóttur, formanns framkvæmdaráðs flokksins á sama vettvangi í gær. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, blandaði sér í umræðuna í gærkvöldi og gagnrýndi Birgittu fyrir að láta eins og hún væri fórnarlamb í deilunni í ljósi þess að hún hefði sjálf rægt aðra innan flokksins. Vísaði hann þar til ásakana Birgittu þess efnis að ungur félagsmaður ætlaði að beita sér fyrir yfirtöku frjálshyggjumanna á Pírötum.
Birgitta segir misklíð lengi hafa fengið að grassera innan Pírata sem væri mein sem þyrfti að laga. Helgi Hrafn hefur líkt samskiptavanda, sem væri til staðar innan flokksins, við ofbeldissamband. Birgitta segir Pírata hafa laðað að sér fólk víða að sem væri eðlilegt. „Það sem gerist líka alltaf þegar um völd er að ræða að það upphefst valdabarátta um skoðanir og stefnur. Ég er mjög meðvituð um þetta og þess vegna þegar ég tók þátt í stofnun Pírata á Íslandi lagði ég til að við myndum hafa flatan strúktúr og dreifa ábyrgð og völdum.“
Þetta hafi gengið ágætlega þar til Píratar hafi farið að mælast með mikið fylgi. „Píratar í öðrum heimshornum hafa orðið fyrir sambærilegum áskorunum í meðbyr og þar mistókst að finna lausnir. Þar var ákveðið að takast á um allt á milli himins og jarðar fyrir opnum tjöldum og það endaði með algeru hruni á trausti. Það er eitt að tala efnislega um ólík pólitísk sjónarmið, annað er að takast á um persónuleg ágreiningsmál. Það vill enginn sem er að koma í partý lenda í rifrildi gestgjafana. Þá fer fólk eitthvað annað og það væri hörmulegt að þeir sem finna von í okkar málflutningi um pólitískar lausnir missi þá von.“