Píratar með leiðtoga án aðhalds

Helgi Hrafn Gunnarsson, alþingismaður.
Helgi Hrafn Gunnarsson, alþingismaður. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við höfum verið að segja okkur að við séum ekki með leiðtoga, en það er einfaldlega ekki rétt. Við erum með leiðtoga, án aðhalds og án þess að hann hafi verið kosinn. Kannski er ekki lausnin að vera með formannsembætti, en við verðum að horfast í augu við að þessi tilraun að útrýma leiðtogavaldinu í okkar röðum hefur mistekist.“

Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Pírataspjallinu á Facebook í morgun en deilur að undanförnu innan flokksins hafa meðal annars snúist um valdaskiptingu innan hans. Formaður framkvæmdaráðs Pírata hefur sakað Birgittu Jónsdóttur, þingmann flokksins, um að taka sér formannsvald í flokknum án þess að hafa til þess umboð og Helgi sakað hana um að misnota aðstöðumun til þess að rægja almennan félagsmann. Helgi segir lausnina í þessum efnum ekki vera sér fullkomlega ljós en vandinn sé það hins vegar.

Misbeiting valds leiðir til baktals og gremju

„Sú hugmynd að formannsleysi leiði af sér leiðtogaleysi og þar með valdaleysi er mjög sjarmerandi og vel má vera að það sé hægt að láta hana virka einhvern veginn - en eins og ég segi, þá eftir 3 ár af því að sitja á þingi þá er reynsla mín af þessu fyrirkomulagi það að valdið er til staðar og að þegar því er misbeitt, þá eru engar afleiðingar af því nema baktal og undirliggjandi gremja sem ekki brýst út fyrir en allt springur í loft upp eins og í gær.“

Skiptar skoðanir eru innan Pírata um það hvort rétt sé að vera með formlega stöðu formanns flokksins. Helgi Hrafn segist telja að það kunni að vera betra að skilgreina valdið. Það hverfi ekki við það að vera óskilgreint. Þessu er Birgitta ósammála. „Formlegar valdastöður hafa ávallt leitt til formfestu á völdum sem eru hluti af vanda fortíðar og nútíðar. Ég vona að valdefling og valddreifing verði hluti af langtíma stefnu hjá flokknum í stað þess að formfesta valdastöðurnar,“ segir hún á Pírataspjallinu í dag.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata,
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka