Ráðherra og rektor ræddu málin

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jón Atli Benediktsson á fundinum í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jón Atli Benediktsson á fundinum í dag. Mynd/Forsætisráðuneytið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fundaði með Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands í dag.

„Við ræddum málin vítt og breitt, meðal annars um ákvörðun Háskólaráðs,“ segir Jón Atli en Háskólaráð Háskóla Íslands ákvað á fundi sínum í síðustu viku að flytja grunnnám í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur og að nýta aðstöðu á Laugarvatni til annarra þarfa, ef það á við.

„Ákvörðun hefur verið tekin í málinu. Jafnframt setti Háskólaráð fram ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt sé að vinna áfram að starfsemi á Laugarvatni. Við Sigmundur ræddum lauslega hvernig mætti gera það.“

Hafa alltaf rætt saman á jákvæðu nótunum

Sigmundur Davíð sagði í Facebook færslu eftir að ákvörðunin var tekin að með henni hefði nánast verið  gert út af við hugmyndir um sameiningar eða aukið samstarf Háskóla Íslands við menntastofnanir á landsbyggðinni. Sagði hann þetta væntanlega munu kalla á að fjármunum verði í auknum mæli beint til skóla á landsbyggðinni.

Spurður hvort þetta hafi verið sáttafundur segir Jón Atli: „Það þurfti engan sáttafund okkar á milli. Þetta var almennt spjall um málefni háskólans og framtíðarmöguleika. Þegar við höfum rætt saman hefur það alltaf verið á jákvæðum nótum.“

Fundaði með stjórnendum í Bláskógabyggð

Jón Atli sagðist einnig hafa átt góðan fund með forsvarsmönnum sveitarfélagsins í Bláskógabyggð í dag um mögulega uppbyggingu á Laugarvatni.

Meðal hugmynda Háskólaráðs varðandi áframhaldandi starfsemi á Laugarvatni er að þar gæti verið miðstöð fyrir nám, kennslu, rannsóknir og þróunarstarf þar sem mætti hafa lotukennslu, aðstöðu fyrir rannsakendur  og fundaraðstöðu. Einnig kemur til greina að hafa þar rannsóknarsetur með nokkrum starfsmönnum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra átti í dag fund með Jón Atla Benediktssyni háskólarektor. Á fundinum ræddu...

Posted by Forsætisráðuneytið on 24. febrúar 2016
Frá Laugarvatni.
Frá Laugarvatni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert