Samningafundi í Straumsvíkurdeilunni er nýlokið hjá ríkissáttasemjara. Að sögn Ólafs Teits Guðnasonar, upplýsingafulltrúa Rio Tinto á Íslandi, ber enn mikið í milli. Annar fundur hefur ekki verið boðaður.
Yfirmenn í álverinu gengu í störf hafnarverkamanna í morgun við að flytja ál um borð í flutningaskip en voru stöðvaðir af verkfallsvörðum. Ólafur Teitur er ósáttur við að aðgerðirnar hafi verið stöðvaðar. „Við töldum okkur vera í fullum rétti við að reyna að sjá til þess að það skrúfaðist ekki fyrir tekjustreymi til fyrirtækisins,“ segir hann.
„Maður hlýtur að gera ráð fyrir því að það fáist úr því skorið á réttum vettvangi hver hafi verið í rétti þarna. Við teljum að við höfum verið en það eru ekki mörg fordæmi sem hægt er að líta til í þessu sambandi. Aðalatriðið er að reyna að ná samningum. Þeir hafa strandað á því að verkalýðsfélögin þverneita að leyfa álverinu að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki varðandi útboð á afmörkuðum þjónustuþáttum,“ bætir Ólafur Teitur við.
Aðspurður segir hann enga ákvörðun hafa verið tekna um að álverið leiti réttar síns vegna stöðvunarinnar í morgun. „Það sem gerðist í morgun er greinilega umdeilt. Það eina sem gæti komið í veg fyrir að við fáum úr því skorið er ef það myndi semjast.“