Lögreglu skorti heimild til að sekta

Justin Bieber í Jökulsárlóni.
Justin Bieber í Jökulsárlóni. Skjáskot af YouTube

Töluverðar umbætur verða gerðar í slysavörnum við Jökulsárlón fyrir sumarið. Til stendur að setja upp nokkur skilti, afmarka bílastæði og setja upp björgunarlykkjur við lónið.

Nokkuð er um að gestir lónsins fari út á ísinn, sigli á gúmmíbátum eða syndi jafnvel í lóninu. Stutt er síðan hátt í fimmtíu ferðamenn röltu um á ísnum og var Björgunarfélag Hornafjarðar kallað út þeim til bjargar.

Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg segir í samtali við mbl.is úrræði skorti svo hægt að sekta þá sem fari á svæði sem eru hættuleg og varað hefur verið við. Fyrir rúmu ári var fundað um slysavarnir við Jökulsárlón og nú lítur út fyrir að hægt verði að bæta stöðu mála á næstu tveimur mánuðum.

Hægt að keyra niður að lóninu

„Þetta hófst með því að fulltrúar Vatnajökulsþjóðgarðs, sveitarfélagsins, lögreglu, landeigenda og Landsbjörg komu saman og veltu fyrir sér hvað hægt væri að gera þarna,“ segir Jónas en oft hefur legið við slysi við Jökulsárlón.

Ákveðið var að setja upp fleiri skilti, afmarka bílastæði og setja upp björgunarlykkju og því næst var hafist handa við fjármögnun verkefnisins. Verkefnið kallast Slysavarnir á völdum svæði og er stefnt að því að skoða næst hvað betur megi fara í slysavörnum við Sólheimajökul.

„Næsta skref er að setja upp mjög góð skilti sem benda á hættuna sem felst í því að fara út á ísinn. Bílastæðin verða afmörkuð þannig að umferðinni sé stýrt en í dag er hægt að keyra þarna alla sanda niður í fjöru og að lóninu,“ segir Jónas. Þá verða settar upp að minnsta kosti fimm Björgvinsbelti, eða svokallaðar björgunarlykkjur.

Við skiltagerðina verður litið til Nýja Sjálands. „Við ætlum ekki að fara í þessa stöðluðu skiltagerð eins og mikið er hér á landi heldur vera með sértæk skilaboð sem miða við staðinn hverju sinni,“ bætir hann við.

Stórhættulegt að sigla um á gúmmíbátum

Jónas segir að atvikið um daginn, þegar hátt í fimmtíu ferðamenn gengu um lónið sem var ísilagt að hluta, hafi orðið til þess ýta enn frekar við hópnum.

Telur þú að fyrirhuguð skilti og merkingar gætu komið fyrir atvik sem þetta?

„Ég held að þó að skiltið og annað hefði verið komið upp hefði það ekki komið í veg fyrir þetta. Það sem vantar til viðbótar við fræðslu og slysavarnir á hverjum stað er að lögregla og aðrir hafi úrræði, það er að segja, það er ekkert sem bannar fólki að fara út á ísínn, það er enginn sem bannar fólki að synda í Jökulsárlóni,“ segir Jónas.

„Það eru nokkrir sem koma með litla gúmmíbáta, sem er stórhættulegt. Það er ekki hægt að banna það, lögreglan hefur ekki vald til þess og fólk er hrætt við að taka af skarið. Svona þarf að vera bannað af því að það er ljóst að þetta er stórhættulegt,“ bætir Jónas við og vill sjá að fólk verði sektað fyrir hegðun sem þessa.

Frétt mbl.is: Búið að koma öllum af ísnum

Frétt mbl.is: Óttast að fólk elti Bieber

Töluverðar umbætur verða gerðar í slysavörnum við Jökulsárlón fyrir sumarið.
Töluverðar umbætur verða gerðar í slysavörnum við Jökulsárlón fyrir sumarið. mbl.is/Ómar Óskarsson
Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg.
Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert