Meiri varkárni gætir hjá viðskiptavinum Veitna ohf. gagnvart álestrarmönnum fyrirtækisins eftir að fregnir bárust af árásunum í Móabarði. Þá finna starfsmenn sjálfir fyrir meira óöryggi. Þetta segir Sigrún Viktorsdóttir, forstöðumaður þjónustustýringar hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Frétt mbl.is: Lögregla aftur kölluð út í Móabarð
„Viðskiptavinir okkar hringja í auknum mæli og óska eftir því að lesa á mælana sjálfir. Hins vegar þurfum við reglulega að koma og skipta um mæla,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is.
Hún tekur sem dæmi að á þessu ári þurfi að skipta um tíu þúsund vatnsmæla.
„Þá er náttúrlega óhjákvæmilegt að við þurfum að koma á vettvang, en við sendum þá tölvupósta um að von sé á okkur. En við höfum líka klárlega fundið fyrir breyttu viðmóti viðskiptavina og okkar starfsmenn eru óöruggari eftir þessar fregnir. Að heyra af þessu var áfall fyrir okkur alveg eins og aðra.“
Að sögn Sigrúnar eru alla jafna um átta starfsmenn að vinna við álestur mæla hverju sinni. Starfa þeir ýmist fyrir Veitur, sem er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, eða sem verktakar á þeirra vegum.
Í kjölfar árásanna fékk Orkuveitan fyrirspurn frá kvenkyns viðskiptavini þar sem viðkomandi hafði áhyggjur af því að maður hefði komið inn á vinnustað hennar og villt á sér heimildir sem álestrarmaður á vegum Veitna.
„Um var að ræða verktaka sem hafði gert sig fullheimakominn og fór ekki samkvæmt verklagsreglum,“ segir Sigrún. „Farið var yfir verklag með honum eftir atvikið og við ítrekuðum við hann reglur sem gilda um framkomu við viðskiptavini okkar.“
Þjónustuver Orkuveitunnar hefur einnig fundið fyrir auknum fjölda fyrirspurna að sögn Sigrúnar.
„Það er meira spurt en áður hvort viðkomandi aðili sé á okkar vegum og í öll þau skipti þá segjum við fólki að okkar starfsmenn séu mjög vel merktir, með skilríki og sýni þau þar sem þeir mæta. Það á enginn viðskiptavinur okkar að velkjast í vafa þegar við mætum á svæðið, en það er sjálfsagt mál að hafa samband við okkur ef einhver vafi leikur á.“
Á vef RÚV kemur fram að margir íbúar Hafnarfjarðar séu óttaslegnir eftir fregnir af árásunum í Móabarði. Rætt var við Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjón sem sagði íbúa hafa haft samband og reynt að afla upplýsinga um málið. Sagðist hann vita til þess að fólk væri að safna að sér bareflum við útidyr eða inni á heimilinu vegna málsins.