Tvö ný skilti við Reynisfjöru

Landeigendurnir þrír við skiltið sem þeir settu upp í dag. …
Landeigendurnir þrír við skiltið sem þeir settu upp í dag. Frá vinstri: Gísli Guðbergsson, Ólafur Björnsson og Guðni Einarsson. Mynd/Jónas Erlendsson

Búið er að setja upp nýtt skilti við göngustíginn að Reynisfjöru þar sem ferðamenn eru varaðir við aðsteðjandi hættu.

Einnig hefur verið strekkt keðja á stuðlabergsdranga með litlum skiltum sem vísa veginn að skiltinu. Keðjan verður 150 metra löng þegar búið verður að stækka bílastæðið á svæðinu.

Um leið og veður leyfir verður annað, enn stærra skilti, sett upp við bílastæðið.

Lögreglan á Suðurlandi kom með skiltin í Reynisfjöru og stóðu þeir Gísli Guðbergsson, bóndi á Lækjarbakka, Ólafur Björnsson, bóndi í Reyni, og Guðni Einarsson, bóndi í Þórisholti, í ströngu við framkvæmdirnar. Þeir eru allir landeigendur og eigendur veitingastaðarins Svarta fjaran.

Stærra skiltið sem verður sett upp við bílastæðið um leið …
Stærra skiltið sem verður sett upp við bílastæðið um leið og veður leyfir. Mynd/Jónas Erlendsson

Löbbuðu framhjá skiltinu

„Það á eftir að sjá hvort þetta gerir eitthvað,“ segir Ólafur. „Ég sat inni á veitingastaðnum áðan og fylgdist með leiðsögumanni sem var með þrettán manns með sér. Það löbbuðu allir framhjá skiltinu án þess að lesa það. En við vonum að einhverjir líti á það.“

Erlendur ferðamaður drukknaði fyrr í mánuðinum í Reynisfjöru. Síðan þá hefur mikil umræða verið um öryggismál, bæði þar og á öðrum ferðamannastöðum. 

Frétt mbl.is: Stóð á steini þegar aldan tók hann 

Frétt mbl.is: Lögregluvakt ekki til frambúðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka