Lærdómurinn að ekki ætti að gera neitt

Sigurjón Árnason ásamt verjanda sínum, Sigurði Guðjónssyni.
Sigurjón Árnason ásamt verjanda sínum, Sigurði Guðjónssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Sú umgjörð sem komið var upp í kringum kaupréttarfélög Landsbankans sparaði bankanum 10,3 milljarða og dró úr áhættu bankans. Þá höfðu verið teknar 17 aðrar samskonar ákvarðanir í tengslum við fjármögnun kaupréttarfélaganna án þess að neitt óeðlilegt hafi þótt við þau, jafnvel þótt bankinn hafi þá sjálfur lánað til viðskiptanna og án veða. Þetta kom fram í máli Sigurðar Guðjónssonar, verjanda Sigurjóns Árnasonar, fyrrum bankastjóra Landsbankans, fyrir Hæstarétti í dag.

Innra og ytra eftirlit vildu ekki bein lán

Fyrir dómnum í dag er kaupréttarmál Landsbankans, en þar er ákært fyrir umboðssvik við veitingu ábyrgðar til tveggja aflandsfélaga sem héldu utan um bréf í bankanum sem voru ætluð sem kaupréttir fyrir starfsmenn. Áður hafði bankinn sjálfur lánað félögunum fyrir kaupunum, en í máli Sigurðar kom fram að vegna reikningsskilastaðla og laga um að bankinn mætti ekki eiga meira en 10% í eigin bréfum hefði verið ákveðið að fá aðra banka til að lána fyrir viðskiptunum.

Glitnir og Straumur veittu einnig lán

Það sem gerir þær lánveitingar sem ákært er fyrir í þessu máli öðru vísi en til dæmis lánasamninga sem Glitnir og Straumur veittu félögunum var að Kaupþing óskaði eftir ábyrgð bankans vegna lánasamninganna. Sigurður sagði að á þeim tíma sem lánasamningarnir hafi verið gerðir hafi litlar líkur verið á því að fjártjón eða fjártjónsáhætta væru af ábyrgðinni. Væri það ákæruvaldsins að sanna að sömu eða meiri líkur væru á fjártjóni og hagstæðum málalokum þegar verknaðurinn var framkvæmdur, en slíkt hefði ekki komið fram í málinu. Sagði hann ekki hægt að horfa á málið í bakspeglinum og möguleg áhætta metin eftir á.

Sigurður gagnrýndi einnig feril málsins, en þessi hluti var upphaflega hluti af stóra markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans og var rekið á þeim forsendum sem komu fram í bréfi Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara. Benti Sigurður á að forstjóri eftirlitsins á þeim tíma sem bréfið var sent hafi verið Gunnar Andersen, en hann var áður starfsmaður Landsbankans og hafði meðal annars komið að uppsetningu kaupréttarkerfisins á sínum tíma.

Segir saksóknara leggjast lágt í máli sínu

Í máli ákæruvaldsins fyrr í morgun hafði komið fram að ekki væri rétt að styðjast við útreikninga á virði og stöðu aflandsfélaganna og mögulegri fjártjónshættu vegna fyrri dóma sem Sigurjón hafði fengið vegna markaðsmisnotkunar. Sagði Sigurjón saksóknara leggjast lágt með þessum skýringum og benti á að ábyrgðaveitingarnar sem rætt væri um í þessu máli væru frá því í júlí 2006 og júní 2007, en að dómurinn í markaðsmisnotkunarmálinu ætti við nóvember 2007 til október 2008.

Tiltók Sigurður að ef saksóknari myndi horfa á heildarmyndina í kringum kaupréttarkerfið, en ekki á þessar ábyrgðaveitingar sem þrjú einangruð tilvik eins og gert er í málinu, þá kæmust menn að réttri niðurstöðu um að ekkert saknæmt hefði verið gert í þessu máli. Raunar væri niðurstaðan frekar sú að bankinn hafi verið að minnka áhættu sína.

Refsiaukaákvæðið á ekki við

Saksóknari hafði óskað eftir því að dómurinn myndi horfa til refsiaukaákvæðis laga varðandi mögulega refsingu Sigurjóns. Sagði Sigurður að færi svo ólíklega til að Sigurjón yrði sakfelldur þyrfti að horfa til þess hvort hann væri vanaafbrotamaður eða að verknaðurinn hafi verið í atvinnuskyni, eins og kemur fram í refsiaukaákvæðinu. Sagði hann ljóst að það ætti ekki við í þessu tilviki og vísaði á bug rökum saksóknara í þá veru.

Að lokum sagði Sigurður niðurstöðu sína í þessu máli vera þá að það eina sem Sigurjón hefði mögulega unnið sér til saka væri að vera of mikið í vinnunni og reyna að verja hagsmuni bankans of mikið. Sagði hann að  eftir þau hrunmál sem rekin hefðu verið undanfarin ár væri það lærdómur fyrir bankastjóra samtímans að best væri að gera ekki neitt.

„Verður að horfa til allra aðstæðna“

Helga Melkorka Óttarsdóttir, verjandi Sigríðar Elínar, sagði líkt og Sigurður að saksóknari hefði tekið allar ákvarðanir í þessu ákveðna máli úr samhengi og ekki horft á þá valkosti sem hefðu verið í boði á þeim tíma sem ábyrgðirnar voru veittar. „Það verður að horfa til allra aðstæðna,“ sagði Helga og bætti við að aðeins hefði verið hægt að velja tvær leiðir; að bankinn veitti sjálfur lán fyrir kaupunum eða að fara þá leið sem ákært er fyrir.

Með því að lána sjálfur fyrir viðskiptunum hefðu peningar farið út úr bankanum á meðan ábyrgðin væri svipaður gjörningur, nema að fjármunir færu aldrei út úr bankanum. Í raun væri sú leið sem ákært er fyrir því áhættuminni ef eitthvað er en ef bankinn hefði lánað sjálfur, eins og hafði verið gert marg oft áður frá árinu 2000.

Vantar að sýna fram á auðgunarbrot

Ítrekaði hún svo að ef dæma ætti fyrir umboðssvik þyrfti að sýna fram á auðgunarbrot ákærðu. Slíkt hafi ekki verið gert í málinu og því lægi beint við að það þyrfti að sýkna ákærðu. Sagði hún ekkert benda til annars en að Sigríður Elín hafi gert annað en að vinna með hagsmuni bankans í huga í þessu máli sem öðru.

Sigríður Elín Sigfúsdóttir er ákærð í málinu ásamt Sigurjóni Árnasyni.
Sigríður Elín Sigfúsdóttir er ákærð í málinu ásamt Sigurjóni Árnasyni. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka