Illa undirbúið frumvarp og ekkert samráð

Félagið telur að með sameiningu hverfi Þjóðminjasafnið frá rannsóknahlutverki sínu …
Félagið telur að með sameiningu hverfi Þjóðminjasafnið frá rannsóknahlutverki sínu þar sem slíkt samræmist ekki hlutverki fyrirhugaðrar Þjóðminjastofnunar, sem við breytinguna verður stjórnsýslustofnun. mbl.is/Árni Sæberg

Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðrar sameiningar Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. FÍSOS skorar á forsætisráðuneytið að falla frá fyrirhuguðu frumvarpi til laga og fyrirhugaðri sameiningu stofnananna.

FÍSOS gagnrýnir að fyrir liggi illa undirbúið frumvarp sem virðist að engu leyti bera hag starfsemi stofnananna tveggja í fyrirrúmi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem FÍSOS hefur sent frá sér.

Bent er á, að það komi fram í frumvarpsdrögunum að setja þurfi skorður á rannsóknarstarf Þjóðminjasafns Íslands til að hægt sé að gæta sjónarmiða samkeppnislaga vegna sameiningar.

„Félagið telur að með sameiningu hverfi Þjóðminjasafnið frá rannsóknahlutverki sínu þar sem slíkt samræmist ekki hlutverki fyrirhugaðrar Þjóðminjastofnunar, sem við breytinguna verður stjórnsýslustofnun. Félagið telur að breytingin muni rýra gildi Þjóðminjasafns Íslands sem og trúverðugleika þess, en almennt er talið innan safnafræði að rannsóknarhlutverk safna renni stoðum undir þá framþróun og nýsköpun sem nauðsynleg sé í safnastarfi.

Félagið telur það litlu skipta þótt Þjóðminjasafn Íslands verði undirstofnun fyrirhugaðrar Þjóðminjastofnunar þar sem ekki verði um raunverulegan aðskilnað framkvæmda- og stjórnsýsluvalds að ræða. Sú stefna var upphaflega mörkuð með vinnu að lögum um menningjarminjar, þar sem nauðsynleg aðgreining stjórnsýslu og framkvæmdar var fest í sessi. Þá vill félagið minna á að Þjóðminjasafn Íslands er eitt af þremur höfuðsöfnum, auk Listasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands. Skerðingin sem óhjákvæmilega verði á starfsemi Þjóðminjasafns Íslands við fyrirhugaða breytingu muni draga úr vægi þess sem eitt af þremur skilgreindum höfuðsöfnum samkvæmt safnalögum nr. 141/2011,“ segir félagið.

„FÍSOS gagnrýnir að fyrir liggur illa undirbúið frumvarp sem virðist að engu leyti bera hag starfsemi stofnananna tveggja í fyrirrúmi. Með frumvarpinu er verið að ráðast í miklar breytingar á skömmum tíma og ekki var haft samráð við hagsmunaaðila. Þá telur félagið ámælisvert að forsendur frumvarpsins og þær ástæður sem liggi að baki fyrirhugaðrar sameiningar séu óljósar, en slíkt geti aðeins leitt til ómarkvissra athugasemda af hálfu hagsmunaaðila.

Í ljósi þessa skorar FÍSOS á forsætisráðuneytið að falla frá fyrirhuguðu frumvarpi til laga og fyrirhugaðri sameiningu Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Efna þess í stað til víðtæks samráðs við fagfólk og fræðafólk á sviði safna, rannsókna og minjavörslu á Íslandi,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert