Rannsókn á mansalsmáli í Vík í Mýrdal er enn í gangi og gengur vel. Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Suðurlandi er enn verið að taka skýrslur og afla gagna í málinu.
Í síðustu viku var eigandi verktakafyrirtækis í bænum handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann er grunaður um að hafa haldið tveimur konum með erlent ríkisfang í vinnuþrælkun. Upphaf málsins má rekja til rannsóknar á heimilisofbeldi sem maðurinn er talinn hafa beitt eiginkonu sína.
Maðurinn sem er fæddur árið 1975 og er frá Sri Lanka hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. mars vegna málsins.