Saksóknari vill refsiauka á Sigurjón

Sigurður G. Guðjónsson og Sigurjón Árnason, skjólstæðingur Sigurðar, í Héraðsdómi …
Sigurður G. Guðjónsson og Sigurjón Árnason, skjólstæðingur Sigurðar, í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þórður Arnar Þórðarson

Málflutningur í kaupréttarmáli Landsbankans hófst í morgun í Hæstarétti Íslands, en í málinu eru  Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans, ákærð fyrir umboðssvik við veitingu sjálfskuldarábyrgðar á lánasamningum tveggja aflandsfélaga við Kaupþing. Héldu félögin utan um kauprétti starfsmanna Landsbankans og voru þau skráð á Panama. Heildarábyrgðin hljóðaði upp á 6,8 milljarða.

Sigríður Elín og Sigurjón voru bæði sýknuð í héraðsdómi í málinu og ríkissjóður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjenda upp á 23 milljónir.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, fór fram á það við upphaf málflutnings síns að ákærðu yrðu sakfelld í Hæstarétti.

Líkti málinu við Ímon-málið

Í máli sínu fór Helgi yfir málsatvik í stuttu máli, en þau eru óumdeild hjá bæði sækjanda og verjendum. Þar lýsti hann því að aflandsfélögin Em­penna­ge Inc. og Zim­hamCorp hefðu fengið ábyrgðir frá Landsbankanum þegar félögin keyptu hlutabréf í Landsbankanum fyrir 2,5 milljarða og 4,3 milljarða. Voru kaupin fjármögnuð með lánveitingu frá Kaupþingi og voru vistuð á vörslureikningi í þeim banka. Átti þetta sér stað í júlí 2006, en í júní ári seinna voru bréfin og ábyrgðin flutt að fullu yfir í félagið Empennage og skilmálum lánasamningsins breytt, m.a. með lengingu samningsins um 2 ár.

Sigurjón og Sigríður Elín samþykktu þessi viðskipti og í seinna málinu hefur ekki fundist neitt staðfest ákvörðunarblað í málinu.

Líkti Helgi málinu við Ímon-málið, þar sem Sigurjón og Sigríður Elín voru dæmd í fangelsi fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun fyrir sölu á eigin bréfum til tveggja aflandsfélaga og lánað til viðskiptanna.

Vísaði hann til þess að samkvæmt lánareglum bankans ætti ekki að samþykkja neinar meiriháttar lánveitingar utan lánanefndarfunda. Þá spurði hann hvort það væri í raun hægt að segja að 6,8 milljarða lánveiting til eignarlausra aflandsfélaga væri ekki áhættusöm.

Vildi skoða refsiþyngingu fyrir Sigurjón

Sagði Helgi að við ákvörðun refsingar í þessu máli ætti að horfa til niðurstöðunnar í Ímon málinu, þar sem um sambærileg brot væri að ræða. Í því máli fékk Sigurjón 3,5 ára fangelsi og Sigríður Elín 1,5 ára fangelsi.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lagði hann það jafnframt fyrir dóminn að skoða mögulegt refsiþyngingarákvæði samkvæmt 72. grein almennra hegningarlaga í brotum sem þessum. Sagði Helgi að væntanlega væri ekki hægt að flokka málið sem vanabrot þar sem fyrri mál sem Sigurjón og Sigríður Elín hafa verið dæmd fyrir gerðust eftir málsatvik þessa máls. Aftur á móti sagði hann að dómurinn ætti að skoða hvort ákvæði um að brotin hafi verið framin í atvinnuskyni eigi þarna við, ekki síst í ljósi alvarleika brotanna. Sagði hann þetta geta haft talsverð áhrif á fleiri mál tengd hruninu, en meðal annars hafa fyrrverandi starfsmenn Kaupþings náð hámarksrefsingu ásamt Sigurjóni í fyrri málum.

„72. gr. Hafi maður lagt það í vana sinn að fremja brot, einn­ar teg­und­ar eða fleiri, eða hann ger­ir það í at­vinnu­skyni, má auka refs­ing­una svo, að bætt sé við hana allt að helm­ingi henn­ar. Eigi ít­rek­un á þessu sér stað, má refs­ing­in tvö­fald­ast.”

Útreikningar til að reikna út „svikamyllu“

Helgi fór svo yfir nokkur gögn sem verjendur hafa lagt fram í málinu og benti meðal annars til útreikninga sem verjendur höfðu óskað eftir frá Hersi Sigurgeirssyni. Sagði Helgi útreikningana „ekki pappírsins virði“ og að um hefði verið að ræða „pantað mat.“ Sagði hann að í ljósi fyrri dóma í Landsbankamálum hefði meðal annars Sigurjón verið dæmdur fyrir að hafa haldið gengi bankans uppi og því skipti ekki máli hvernig útreikningar væru gerðir til að reikna út „svona svikamyllu“ þar sem gengi bréfanna réðst af gjörðum hans sjálfs. Sagði hann því ekkert mark takandi á gengi bankans á þessum tíma. Sagði Helgi að þar sem um væri að ræða hlutabréf sem gætu hækkað og lækkað væri því alltaf um áhættu að ræða þegar lánað væri út fyrir slíkum kaupum, eins og í þessu máli.

Hver var auðgunarmöguleikinn?

Dómari í málinu spurði Helga að loknum málflutningnum um auðgunarmöguleika Landsbankamanna vegna málsins. Hvort ekki væri um að ræða auðgunarmöguleika fyrir Kaupþing. Svaraði Helgi því að auðvitað væri ábyrgðin til að ábyrgjast útlán Kaupþings og til að mæta mögulegu veðkalli á félögin. Aftur á móti hefðu þau lán sem Kaupþing veitti væntanlega ekki verið veitt nema með ábyrgðinni og þar væri að ræða lán um kauprétti starfsmanna Landsbankans.

Frétt mbl.is: Sigurjón og Elín sýknuð

Frétt mbl.is: Niðurlægður af sérstökum saksóknara

Frétt mbl.is: Bankastjóri dofinn í starfi

Frétt mbl.is: Í rúminu með vinkonu eiginkonunnar

Frétt mbl.is: Vorum að draga úr áhættu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert