Þingvallanefnd hefur hafnað beiðni eldri íslenskra hjóna um að fá að selja sumarbústað sem þau eiga í landi Kárastaða á Þingvöllum til bandarískra hjóna.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins gerðu bandarísku hjónin tilboð í bústaðinn sem hljóðaði upp á nálægt 35 milljónum króna, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Ástæða synjunar Þingvallanefndar var sú, samkvæmt því sem Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og formaður Þingvallanefndar, segir í samtali við Morgunblaðið, að bandarísku hjónin búa ekki á Evrópska efnahagssvæðinu, auk þess sem það er yfirlýst stefna Þingvallanefndar að fækka sumarbústöðum innan þjóðgarðsins. Nefndin heimilar aðeins að bústaðir séu seldir ættingjum, eða renni til erfingja.