Ný tæknifrjóvgunardeild í Glæsibæ

Þórir Harðarson, forstöðumaður rannsóknarstofa hjá IVF, Sverige og Snorri Einarsson, …
Þórir Harðarson, forstöðumaður rannsóknarstofa hjá IVF, Sverige og Snorri Einarsson, yfirlæknir á IVF Klíníkinni Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Sænska fyrirtækið IVF Sverige opnaði nýja tæknifrjóvgunardeild í gær, föstudag, í Glæsibæ. Fyrirtækið tilkynnti um kaup sín á Art Medica í desember í fyrra og hefur lagt niður starfsemina þar. Í staðinn hefur ný deild verið opnuð sem ber heitið IVF-klíníkin Reykjavík.

IVF Sverige er stærsti aðilinn í þjónustu og meðferð ófrjósemi á Norðurlöndunum og rekur 8 deildir í Svíþjóð, Noregi og nú einnig á Íslandi. „Undirbúningsferlið hefur staðið yfir í marga mánuði og hefur gengið afar vel,“ segir Snorri Einarsson, yfirlæknir á IVF-klíníkinni. Ásamt honum verður deildin rekin af Ingunni Jónsdóttur, fæðingar- og kvensjúkdómalækni og Steinunni Þorsteinsdóttur, líffræðingi.

Deildin verður búin nýjum fullkomnum tækjum og búnaði. „Glasa- og tæknifrjóvgunarstarfsemi er gríðarlega tæknileg og sömuleiðis eru gerðar miklar kröfur til hennar frá sjúklingum, en ekki síður frá yfirvöldum,“ segir Snorri. IVF-klíníkin þarf að lúta ýmsum reglugerðum, svo sem þegar kemur að gæðakerfum, tölvukerfum og rekjanleika gagna. „Þó að það séu kannski ekki sérstök tæki eru það mikilvæg verkfæri sem við fáum hjálp með frá móðurfyrirtækinu,“ segir Snorri.

Meðal nýrra tækja á rannsóknarstofunni eru hita- og ræktunarskápar fyrir fósturvísa sem eru með innbyggðum smásjám og myndavélum fyrir hvern fósturvísi. „Þannig getum við fylgst náið með þeim og tekið af þeim svokallaðar hikmyndir. Ein mynd er tekin með ákveðnu millibili sem sýnir okkur hvað gerist yfir tíma sem gerir okkur kleift að velja betur hvaða fósturvísar eiga góða möguleika,“ segir Snorri.

Hvað varðar kostnað segir Snorri að notast verði við sömu verðskrá og áður, líkt og búið var að lofa. „Fyrir sömu aðferðir og áður voru framkvæmdar munum við ekki taka meira fyrir, þó að við séum að nota fullkomnari tækjabúnað nú. Við tökum upp nýjar aðferðir, eins og til dæmis að rækta fósturvísana lengur og aðra tegund af frystiaðferð og þar kemur inn nýr liður í verðskrána.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert