Fjárhagsmál Landeyjahafnar og útboð á Herjólfi voru til umræðu á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður nefndarinnar, undrast mjög að ný Vestmannaeyjaferja hafi ekki verið tekin inn í fjárlög þessa árs.
„Aðallega hef ég áhyggjur af fjárhagshlið þessa máls og sakna þess mjög, fyrst búið var að ákveða að fara með nýjan Herjólf í útboð, að þetta skuli ekki hafa verið tekið inn í fjárlög fyrir 2016. En samkvæmt plani á að leggja rúman milljarð [króna] í þetta útboð á þessu ári án þess að fyrir því sé heimild í fjárlögum,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is og heldur áfram:
„Eins og staðan er í dag þá lítur út fyrir að heildarkostnaður við þetta, þ.e. höfnin, dælingin og nýtt skip, standi í um tíu milljörðum þegar uppi er staðið.“
Aðspurð segir Vigdís ólíkar skoðanir uppi þegar kemur að kostnaði við að halda Landeyjahöfn opinni til framtíðar. „Menn eru t.d. að ræða fastan búnað í höfninni sjálfri sem er stofnkostnaður frá 200 til 1.000 milljónum króna, allt eftir því hvaða búnaður verður keyptur.“
Þá segist Vigdís hafa stungið upp á því við bæjarstjórn Vestmannaeyja hvort ekki sé hentugast að niðurgreiða verð á flugmiðum fyrir Eyjamenn. „Herjólfur yrði þá látinn sigla í Þorlákshöfn með bíla og varning á meðan menn eru að átta sig betur á stöðunni til að koma í veg fyrir fljótfærnisákvarðanir.“