Búið að yfirheyra átta vitni

Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að …
Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að hafa haldið konunum tveimur í kjallara.

Rannsókn á meintu mansali í Vík í Mýrdal miðar vel en þegar hafa átta vitni gefið skýrslu fyrir dómi. Öll vitnin höfðu verið í vinnu hjá Vonta International. Enn á eftir að yfirheyra nokkur vitni.

Karlmaður frá Sri Lanka hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því um miðjan febrúar, grunaður um að halda tveimur konum frá sama landi í vinnuþrælkun á saumastofu sinni í Vík. Gæsluvarðhaldið rennur út á föstudag.

Ákveðið var að hafa skýrslutökurnar fyrir dómara þannig að ekki þyrfti að yfirheyra fólkið aftur. 

Til aðstoðar lögreglunni á Suðurlandi við rannsókn málsins er mansalssérfræðingur, fjármunabrotadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, Europol, skattrannsóknarstjóri og ríkisskattstjóri.

Auk yfirheyrslna er verið að afla gagna og vinna úr þeim en ekki liggur fyrir hvenær rannsókninni lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert