Sophus J. Nielsen, forstjóri Ísól, lést á heimili sínu í Mosfellsbæ 29. febrúar sl. á 85. aldursári.
Sophus var fæddur í Reykjavík 18. september 1931, sonur hjónanna Marzelínu Friðriksdóttur húsmóður og Hjartar A. Nielsen kaupmanns í Reykjavík.
Sophus stundaði nám í Verslunarskólanum og Héraðsskólanum á Laugarvatni. Hann hóf starfsferil sinn árið 1953 hjá Hamilton Contractors á Keflavíkurvelli, fór m.a. á vegum þess til New York til að sækja sér frekari menntun á sviði öryggismála.
Eftir að Hamilton hætti starfsemi á Íslandi hóf hann störf hjá Íslenskum aðalverktökum. Sophus stofnaði, ásamt félögum sínum, innflutnings- og heildverslunina Ísól ehf. árið 1959. Fyrirtækið rak hann framan af með Magnúsi Guðmundssyni en síðar með syni sínum, Hirti Nielsen. Sophus starfaði við fyrirtækið allt til dauðadags, í nær 57 ár.
Árið 1955 kvæntist Sophus eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Margréti Nielsen Friðriksdóttur húsmóður.
Börn Sophusar og Guðrúnar eru Hildur, ljósmóðir búsett í Belgíu, Hjörtur, framkvæmdastjóri á Seltjarnarnesi, og Anna, verkfræðingur í Reykjavík.