Bás Tækniskólans bestur

Gunnar Kjartansson, skólastjóri Byggingatækniskólans, Ólafur Sveinn Jóhannesson, atvinnulífstengill hjá Tækniskólanum …
Gunnar Kjartansson, skólastjóri Byggingatækniskólans, Ólafur Sveinn Jóhannesson, atvinnulífstengill hjá Tækniskólanum og Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit 2016.

Sýningarsvæði Tækniskólans var í dag valið það athyglisverðasta á stórsýningunni Verk og vit sem haldin er í Laugardalshöll nú um helgina. Það var álit dómnefndar að bás Tækniskólans væri áhugaverður og líflegur og að gestir upplifi sig sem þátttakendur í því sem hann hefur fram að færa, að því er fram kemur í tilkynningu frá Verk og vit.

„Við erum virkilega ánægð með viðurkenninguna en með sýningarsvæðinu okkar erum við fyrst og fremst að sýna gestum að byggingariðnaðurinn snertir alla á hverjum einasta degi. Það skiptir okkur í Tækniskólanum mestu máli að unga fólkið átti sig á því að það getur unnið við sín áhugamál og við erum hérna til að leiðbeina þeim,“ segir Ólafur Sveinn Jóhannesson, atvinnulífstengill hjá Tækniskólanum samkvæmt tilkynningunni.

EFLA verkfræðistofa hlaut annað sætið en hreinleiki og litafegurð þótti einkenna bás fyrirtækisins og voru dómarar á því að þegar komið er inn í hann sé upplifunin svolítið eins og gesturinn sé kominn inn í sína eigin veröld. 

Í þriðja sæti eru svo Ergo og Trackwell. Ergo fyrir hreinleika og markaðssetningu sem þykir mjög sniðug og eins hversu vel starfmenn á básnum sinna gestum sínum.

Einnig veitti sýningarstjórn Sýningarverðlaun og horfði þá aðallega til útlits og glæsileika básanna. Að þessu sinni voru það Byko og LNS Saga sem þóttu skara fram úr, en bás Byko þykir svo vel heppnaður að hann verður nýttur í einni af verslunum fyrirtækisins, að því er segir í tilkynningunni.

„Það er greinilegt að sýnendur lögðu sig alla fram við gerð básanna og eins skín það í gegn að starfsmenn fyrirtækjanna hafa mjög gaman af þessu. Sýningin er ár er virkilega sterk og efnismikil, svo þetta var erfitt val, en vinningshafarnir eiga viðurkenningu skilið,“ segir Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit 2016 og fulltrúi dómnefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert