Slökkviliðsmenn berjast nú við mikinn eld í húsnæði við Grettisgötu 87 í Reykjavík, en samkvæmt heimildum mbl.is leitar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nú tveggja manna í tengslum við eldsvoðann.
Á vettvangi eru nú fjórir dælubílar slökkviliðs og tveir körfubílar. Er unnið að niðurlögum eldsins en vegna hættulegra efna, sem finna má inni í húsinu, hefur verið ákveðið að senda ekki slökkviliðsmenn þangað inn. Er því barist við eldinn utan frá.
Mbl.is hefur heimildir fyrir því að lögreglumenn leiti nú tveggja manna í tengslum við rannsókn málsins. Eru þeir sagðir hafa sést yfirgefa húsið skömmu áður en eldurinn kom upp.
Áfram verður fylgst með þessu máli á mbl.is í kvöld.