Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til að aðhafast vegna framsals Glitnis hf. á öllu hlutafé í Lyfju hf. til Ríkissjóðs Íslands en þetta kemur í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt var á vef Samkeppniseftirlitsins í dag.
Framsal Glitnis á Lyfju til ríkissjóðs er liður í stöðugleikaframlagi þrotabúa föllnu bankanna. Með umræddu framsali fær Ríkissjóður Íslands ýmsar eignir frá Glitni, þ. á m. allt hlutafé í Lyfju og lánasamning á milli Glitnis og Lyfju.
Að mati Samkeppniseftirlitsins mun framsalið ekki auka samþjöppun á markaðnum. Skorður séu á mögulegri samkeppnishegðun fyrirtækja í eigu ríkisins, t.a.m. setja ríkisstyrkjareglur EES-samningsins því skorður varðandi fjármögnun fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Því telji Samkeppniseftirlitið ekki forsendur vera fyrir því að setja eignarhaldi ríkisins skilyrði umfram almennar reglur sem um eignarhald þess gilda auk þess sem fyrirhugað er að eignarhald ríkisins verði skammvinnt.
„Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni og leiði ekki til myndunar markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir hann ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans á grundvelli 17. gr. c. samkeppnislaga nr. 44/2005,“ segir á vef Samkeppniseftirlitsins.