15 dómarar eigi sæti við Landsrétt

Frumvörp Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, voru samþykkt á fundi ríkisstjórnar í …
Frumvörp Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, voru samþykkt á fundi ríkisstjórnar í morgun. Árni Sæberg

Tvö frumvörp Ólafar Nordal, innanríkisráðherra; til nýrra heildarlaga um dómstóla og um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, voru samþykkt á ríkisstjórnarfundi fyrr í dag. Með frumvarpi til laga um dómstóla er lagður grundvöllur að stofnun millidómstigs hérlendis sem bætist við þau tvö dómstig sem fyrir eru, þ.e. héraðsdómstóla og Hæstarétt.

Eins eru gerðar verulegar breytingar á stjórnsýslu dómstóla með þeim hætti að sameiginleg stjórnsýsla allra þriggja dómstiga er færð undir nýja stofnun á vegum dómstólanna. Viðamiklar breytingar á meðferð mála fyrir dómi sem leiða af stofnun millidómstigs eru lagðar til með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála.

15 dómarar eigi sæti við Landsrétt og þrír skipi dóm að hverju sinni

Nái frumvörp innanríkisráðherra fram að ganga verður stofnaður nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur, sem skipað verði á milli héraðsdómstólanna og Hæstaréttar Íslands, en Hæstiréttur verður eftir sem áður æðsta dómsvald þjóðarinnar.

Með frumvarpi innanríkisráðherra er lagt til að 15 dómarar eigi sæti við Landsrétt og að þrír dómarar taki þátt að meginstefnu í meðferð hvers máls. Samhliða stofnun Landsréttar er ráðgert að fækka dómurum við Hæstarétt Íslands úr níu í sjö og að fimm dómarar taki þátt í meðferð máls að hverju sinni, en þó þannig að heimild sé til að skipa dóm sjö dómurum í undantekningartilvikum.

Þá verður áfrýjun á dómum Landsréttar til Hæstaréttar í öllum tilvikum háð leyfi Hæstaréttar, bæði í einkamálum og sakamálum. Settar eru fram viðmiðanir sem Hæstiréttur skal líta til við ákvörðun um áfrýjunarleyfi. Tiltölulega þröng heimild verði til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar ef þörf er á skjótri niðurstöðu í máli og að uppfylltum fleiri skilyrðum, m.a. að ekki sé ágreiningur um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar.

Skýrslutökur í héraði verði teknar upp í hljóði og mynd

Meginmarkmið þeirra grundvallarbreytinga á dómstólaskipaninni er í fyrsta lagi að meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu verði fylgt á áfrýjunarstigi, bæði í einkamálum og sakamálum. Þannig verði komið til móts við alþjóðlegar kröfur um milliliðalausa sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi en Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið að milliliðalaus sönnunarfærsla sé liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu.

Í öðru lagi er það að létta álagi af Hæstarétti Íslands og gera honum betur fært að sinna hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll. Þá er það markmið frumvarpanna að stuðla að vandaðri málsmeðferð í málum þar sem reynir á sérfræðileg atriði. 

Til þess að koma til móts við alþjóðlegar kröfur um milliliðalausa sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi er lagt til í frumvarpinu að allar skýrslutökur í héraði verði teknar upp í hljóði og mynd til þess að unnt sé að spila upptökurnar við aðalmeðferð fyrir Landsrétti ef þess gerist þörf við endurskoðun sönnunarmats.

Sönnunarfærslu fyrir Landsrétti verði hagað þannig að mögulegt verði að leiða ný vitni við aðalmeðferð og sömuleiðis taka viðbótarskýrslur af þeim sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. 

Lagt er til að unnt verði að endurskoða öll atriði héraðsdóms fyrir Landsrétti, bæði í einkamálum og sakamálum, með þeim almennu takmörkunum sem eru á málskotsheimildum og þeim almennu takmörkunum sem hér eftir sem hingað til leiða af meginreglum réttarfars. Þá er lagt til að heimilt verði að kalla til sérfróða meðdómsmenn bæði í héraði og fyrir Landsrétti.

Ráðuneytið hafði vítækt samráð við samningu frumvarpsins. Nefnd um millidómstig, sem Hanna Birna Kristjánsdóttir þáverandi innanríkisráðherra skipaði sumarið 2013, skilaði fyrstu drögum að frumvörpum vegna stofnunar millidómstigs í mars 2015 og er efni frumvarpanna byggt á þeim drögum auk athugasemda sem borist hafa um þau.

Hæstiréttur Íslands verður áfram æðsti dómstóll þjóðarinnar.
Hæstiréttur Íslands verður áfram æðsti dómstóll þjóðarinnar. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert