Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, vonast eftir því að nemendur Verslunarskóla Íslands fylgi tilmælum Kringlunnar um að leggja á bílastæðum á vesturhlið hússins en ekki austan megin. Akandi nemenda Verslunarskólans biðu lokanir þegar þeir ætluðu sér að leggja austan megin við Kringluna í morgun eftir að Kringlan ákvað að opna þau seinna en venjulega þar sem stæðin við austurendann eru af skornum skammti og ætluð viðskiptavinum.
Frétt mbl.is: Verslingar í hart við Kringluna
„Stæði Kringlunnar eru hugsuð sem stæði fyrir viðskiptavini hússins. Þau eru í eigu Kringlunnar og rekin af Kringlunni. Það er kostnaðarsamt að halda úti fjölda bílastæða en við höfum þó alltaf sýnt því skilning að krakkarnir legðu á stæðum hússins. Við höfum beint þeim vestan megin við húsið þar sem fjöldinn er mestur,“ segir Sigurjón.
Spurður hvort hann hafi áhyggjur af mótmælum morgundagsins kveður Sigurjón nei við. Hann segir öllum frjálst að koma inn í hús en háreysti og annað slíkt sem er ekki æskilegt innandyra verði ekki látið afskiptalaust.
Þá segir hann að bílakjallarinn við austurendann verði áfram lokaður á morgnana líkt og í morgun, en efri hæðin verður opin. Sigurjón vonast þó til þess að nemendur virði tilmæli Kringlunnar um að leggja ekki þar.