Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er enn með mannskap að störfum við iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu 87 þar sem eldur kviknaði í gærkvöldi. Búið var að slökkva eldinn að mestu klukkan 3:30 í nótt en nú stendur yfir svokölluð brunavakt að sögn varðstjóra þar sem fylgst er með því hvort kvikni í glæðum.
Framhaldið skýrist með morgninum en ljóst er að húsið er mjög skemmt. Margir íbúar húsanna í kring ákváðu í gærkvöldi að flýja heimili sín vegna reyksins.
Ekki er vitað með eldsupptök, en í gær var greint frá því á mbl.is að heimildir væru fyrir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leiti nú tveggja manna sem sáust yfirgefa húsið skömmu áður en tilkynnt var um eldinn.