Fólk prílaði yfir gula borða sem lögregla strengdi í kringum vettvang eldsvoðans á Grettisgötu í gærkvöldi til að ná betri myndum og þurftu lögreglumenn að standa í stappi við það. Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að fólk eigi að skilja hvað það þýði að lögregla girði af svæði.
Í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér í dag vegna eldsvoðans sem kom upp í iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu 87 í gærkvöldi kom meðal annars fram að vegfarendur hafi komið á vettvang, virt lokanir lögreglu að vettugi og truflað starf björgunaraðila.
Jóhann Karl segir í samtali við mbl.is að fólk hafi hunsað gula borða sem lögreglumenn strengdu í kringum húsið. Lögreglumennirnir hafi þurft að eyða tíma í að rökræða við fólk sem vildi komast nær eldinum. Einhverjir hafi aðeins viljað ná betri myndum, aðrir hafi viljað komast að til að sækja bíla.
„Ef lögregla er búin að loka með gulum borða á venjulegt fólk að skilja það,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónninn.
Spurður að því hvort að það hafi færst í aukana að vegfarendur séu ágengir á vettvangi sem þessum segist Jóhann Karl ekki geta metið það sérstaklega. Lögreglumenn á vakt hafi hins vegar séð ástæðu til að bóka sérstaklega hvað það var óvenjumikið af fólki sem stóð í þrasi við lögreglu í gærkvöldi.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að ágangurinn hafi ekki truflað slökkviliðsmenn í gær enda hafi lögregla séð um að þeim væri veittur friður til að sinna störfum sínum.
Ástandið í gær hafi ekki verið neitt í líkingu við það sem skapaðist þegar mikill eldur kom upp í Skeifunni fyrir tveimur árum. Þá þurfti að kalla til aukamannskap frá björgunarsveitum til að girða vettvanginn af en töluverðan fjölda fólks dreif að til að fylgjast með eldinum. Jón Viðar segir að þá hafi slökkviliðsmenn verið verulega ósáttir enda hafi þeir átt erfitt með að koma bílum og búnaði að vettvangi fyrir atgangi vegfarenda.
„Í gær var ekkert slíkt,“ segir hann.