Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, en þar er ákært fyrir meinta markaðsmisnotkun fyrir hrun bankans. Málið verður þingfest 15. apríl næstkomandi, en málið er komið á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur. Samkvæmt heimildum mbl.is er bæði ákært fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik.
Ákærðir í málinu samkvæmt vef héraðsdóms eru Lárus Welding, fyrrum bankastjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrum framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, auk þeirra Jónasar Guðmundssonar, Valgarðs Más Valgarðssonar og Péturs Jónassonar. Saksóknari í málinu er Björn Þorvaldsson og dómstjóri er Arngrímur Ísberg. Hafa þeir Lárus og Jóhannes áður fengið dóma fyrir önnur hrunmál.
Héraðssaksóknari hefur haft málið til rannsóknar undanfarin ár, en henni þess lauk seint á síðasta ári. Hefur málið síðan þá verið í ákæruferli síðan, en þá er meðal annars lagt mat á hvort ákært verði í því eður ei.
Embætti héraðssaksóknara, sem áður hét embætti sérstaks saksóknara, hefur áður ákært fyrir markaðsmisnotkun hjá bæði Landsbankanum og Kaupþingi. Voru flestir ákærðu sakfelldir í báðum málunum í héraðsdómi. Landsbankamálið var flutt fyrir Hæstarétti í janúar og voru þá allir ákærðu sakfelldir. Enn er ekki komin tímasetning á Kaupþingsmálið, en það var flutt í héraði síðasta vor.
Lárus var dæmdur í fimm ára fangelsi í Stím-málinu svokallaða fyrir umboðssvik. Jóhannes sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis var dæmdur í 2 ára fangelsi í málinu, einnig fyrir umboðssvik.
Lárus hafði áður verið sýknaður tveimur málum, Vafningsmálinu og Aurum-málinu. Lárus hafði verið dæmdur í héraði í 9 mánaða fangelsi í Vafningsmálinu, en Hæstiréttur sýknaði hann svo. Í Aurum-málinu var hann sýknaður ásamt öðrum ákærðu, en Hæstiréttur ógilti niðurstöðu héraðsdóms í því máli og verður málið aftur tekið fyrir á þessu ári.
Jóhannes hlaut áður dóm í BK-44 málinu svokallaða, en í héraðsdómi fékk hann fimm ára fangelsi, sem Hæstiréttur mildaði svo niður í þriggja ára fangelsi.