Lögregla er með einn í haldi í tengslum við brunann á Grettisgötu 87 á mánudag. Lögregla mun nú kanna hvort hann sé annar tveggja manna sem sáust yfirgefa húsnæðið eftir að elds og reyks var vart.
Greint var frá þessu á vef Ríkisútvarpsins og staðfesti Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn upplýsingarnar í samtali við mbl.is.
Að sögn Jóhanns Karl var maðurinn handtekinn í gærkvöldi vegna annars máls og á eftir að yfirheyra hann. Ekki hefur verið ákveðið hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Tæknideild lögreglu rannsakaði vettvanginn í morgun og hafa viðeigandi vátryggingafélög nú fengið aðgang að honum. Aðspurður sagðist Jóhann Karl ekki geta gefið upplýsingar um upptök eldsins.