Sendur í leyfi vegna markaðsmisnotkunarmáls

Maðurinn starfar sem viðskiptastjóri einkabankaþjónustu Íslandsbanka.
Maðurinn starfar sem viðskiptastjóri einkabankaþjónustu Íslandsbanka. mbl.is/Ómar

Jónas Guðmundsson, viðskiptastjóri einkabankaþjónustu Íslandsbanka, hefur verið sendur í ótímabundið leyfi frá störfum. Kemur ákvörðunin í kjölfar ákæru héraðssaksóknara í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis þar sem Jónas er meðal ákærðu. Rúv segir frá málinu.

Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, segir í samtali við mbl.is að ákvörðunin sé samkvæmt reglum bankans, en að næstu skref verði að skoða ákæruna og þátt hans í ákæruefnum.

Jónas var starfsmaður Glitnis á því tímabili sem ákært er fyrir og var hann starfsmaður í deild eigin viðskipta. Hefur hann síðan bankinn féll starfað hjá Íslandsbanka og var sem fyrr segir viðskiptastjóri hjá VÍB.

Í fyrri markaðsmisnotkunarmálum Kaupþings og Landsbankans sem hefur verið ákært í hefur deild eigin viðskipta komið að kauphlið málanna, þ.e. keypt upp bréf sem bankinn losaði sig svo við á söluhliðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert