Eigendur tryggingafélaga sitja eftir með skömmina af því að taka út arð úr félögunum langt umfram hagnað, að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Hann telur þó ekki lagagrundvöll fyrir ríkið að skerast í leikinn.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði fjármálaráðherra út í arðgreiðslur tryggingafélaganna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Spurði hann um álit ráðherrans á þeim og hvort hann hefði kannað hvort þær samræmdust lögum og reglum. Félögin ætluðu að greiða sér arð sem væri langt umfram hagnað síðasta árs á sama tíma og þau hefðu hækkað iðgjöld á neytendur.
Ráðherrann sagði tryggingafélögin undir sömu sökina seld og önnur atvinnustarfsemi í landinu þegar kæmi að því að taka þátt í því með þingi, vinnumarkaði, sveitarfélögum og ríkisvaldi að endurheimta traust sem rofnaði við fjármálahrunið. Kallaði Bjarni eftir því að tryggingafélögin höguðu rekstraráformum sínum og ráðstöfun hagnaðar eða eigna í samræmi við það ákall sem enn sé í samfélaginu eftir hrunið.
Tók Bjarni undir að það hljómaði illa í eyrum almennings tryggingafélögin hækkuðu iðgjöld en tækju út arð langt umfram hagnað. Í hans eyrum hljómaði það óskiljanlega.
„Þeir sitja þá eftir með skömmina af því,“ sagði Bjarni.
Helgi sagði að þó að eigendur tryggingafélaganna sætu eftir með skömmina sæti almenningur eftir með reikninginn. Gera þyrfti betur en að átelja það úr ræðustóli þegar verið væri að hola félögin að innan skömmu eftir að ríkið hefði þurft að bjarga félögunum úr fjárhagskröggum.
Fjármálaráðherra sagði það ofmælt að verið væri að hola félögin að innan og úttektir Fjármálaeftirlitsins sýndu að tryggingafélögin væru stöndug. Það breytti þó ekki því að fólki væri misboðið þegar félögin gengju fram með þessum hætti gegn neytendum, ekki síst þegar það varðaði lögboðnar tryggingar.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra einnig út í álit hans á arðgreiðslunum. Spurði hann hvort þær væru til marks um að græðgisvæðing væri farin aftur á fulla ferð.
Forsætisráðherra sagði arðgreiðslurnar alls ekki í anda laga um vátryggingafélög og tók undir orð Bjarna um að sérstakt áhyggjuefni væri að ræða þar sem þær byggðust að miklu leyti á skyldutryggingum fólks.
Spurði Sigmundur Davíð á móti hvaða áhrif ákvarðanir síðustu ríkisstjórnar þar sem Steingrímur var fjármálaráðherra um að endurreisa Sjóvá hefðu haft. Fullyrti hann að engar ráðstafanir hefðu verið gerðar til að tryggja endurgreiðslur ríkisaðstoðarinnar þegar betur áraði.
Steingrímur sagðist ekki þeirrar skoðunar að betra hefði verið að láta Sjóvá fara á hausinn á sínum tíma. Þá hefði fjöldi fólks vaknað ótryggður þrátt fyrir að hafa greitt iðgjöld um árabil. Það hefði valdið miklu meira tjóni.