Hæstiréttur hafnar varðhaldi í mansalsmáli

Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að …
Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að hafa haldið konunum tveimur í kjallara.

Hæstiréttur hafnaði í dag beiðni lögreglu um gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um mansal. Felldur var úr gildi úrskurður Héraðsdóms Suðurlands frá 4. mars þar sem manninum var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 1. apríl. Í ljósi málsatvika, og þar sem maðurinn er erlendur ríkisborgari, ákvað Hæstiréttur að hann skyldi fremur sæta farbanni fram að sama tímamarki.

Í úrskurðinum kemur fram að lögreglan á Suðurlandi hafi til rannsóknar meint brot mannsins gegn 227. gr. a. almennra hegningarlaga, sem lýtur að mansali, og einnig gegn ýmsum ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga.

Sterkur rökstuddur grunur um mansal

Kemur fram að lögregla telji að sterkur rökstuddur grunur sé kominn fram um að maðurinn hafi gerst sekur um að stunda vinnumansal á heimili sínu að í skjóli fyrirtækis síns. Fyrir liggi að tvær erlendar konur hafi um nokkurt skeið dvalið og starfað inn á heimili kærða.

Segir svo í framhaldi:

„Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að kærði hafi nær daglega flutt ófullunnar framleiðsluvörur frá starfsstöð fyrirtækisins inn á heimili sitt í þeim tilgangi að láta konunar tvær vinna þar ákveðna verkþætti í framleiðslunni auk heimilisstarfa. Leynd virðist hafa hvílt yfir þessari starfsemi fyrirtækisins sem fram hafi farið á heimili kærða.“

Frá Vík í Mýrdal. Maðurinn var und­ir­verktaki fyr­ir fyrirtækið Icewe­ar.
Frá Vík í Mýrdal. Maðurinn var und­ir­verktaki fyr­ir fyrirtækið Icewe­ar. mbl.is/Jónas Erlendsson

Engar launagreiðslur í hefðbundnum skilningi

Í úrskurðinum segir einnig að konurnar tvær hafi ekki fengið neinar launagreiðslur í hefðbundnum skilningi fyrir þá vinnu sem þær hafi innt af hendi. Maðurinn hafi þó greint frá því að hann hafi í tvígang sent peninga til móður kvennanna tveggja og fjölskyldu þeirra.

„Ljóst sé samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu að staða kvennanna beggja hérlendis hafi verið mjög bág og þær alfarið háðar kærða um alla hluti hér á landi, þar með talið ferðina hingað til lands.“

Maðurinn hefur neitað sök

Enn fremur kemur fram í úrskurðinum að kærði hafi við yfirheyrslur neitað sök. Hefur hann sagt konurnar tvær gestkomandi hér á landi en þær hafi af og til hjálpað til. Sá framburður sé þó í engu samræmi við aðra framburði og rannsóknargögn í málinu.

Segir svo að lögregla telji ljóst að kærði hafi með háttsemi sinni gagnvart konunum tveimur hagnýtt sér bága stöðu þeirra og misnotað þær til nauðungarvinnu í þágu fyrirtækis síns með fjárhagslega hagsmuni að leiðarljósi. Rannsóknargögn lögreglu bendi jafnframt til að brot kærða hafi staðið yfir í nokkurn tíma og að þessi háttur hafi verið hafður á framleiðslu fyrirtækisins um nokkurt skeið.

Rannsókn vel á veg komin

Þá séu brotin þaulskipulögð og varði umtalsverða fjárhagslega hagsmuni, auk þess sem kærði hafi í rekstri fyrirtækisins í fjölmörg skipti brotið gegn ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga sem og önnur ákvæði íslenskrar löggjafar um réttindi á vinnumarkaði.

Rannsókn málsins er að lokum sögð vel á veg komin. Að sögn fulltrúa lögreglustjóra standa vonir til að málið verði komið til ákærumeðferðar við lok marsmánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka