Háskóli Íslands er í 138. sæti yfir bestu háskóla Evrópu samkvæmt lista sem breska tímaritið Times Higher Education hefur birt.
Bretar eiga þrjá efstu háskólana á listanum og alls sjö á topp tíu.
Í efsta sæti er háskólinn í Oxford, í öðru sæti er háskólinn í Cambridge og í því þriðja er Imperial College of London. Samanlagt eiga Bretar langflesta skóla á listanum, eða 46 af 200.
Einn háskóli frá Norðurlöndunum kemst á topp tíu listann, eða Karolinska Institute í Svíþjóð, sem nær 9. sæti.
Times Higher Education segir þetta eina listann sem mæli allt það mikilvægasta sem nútímalegur og alþjóðlegur háskóli þarf að hafa upp á að bjóða: rannsóknir, kennslu, miðlun þekkingar og alþjóðlega virkni.
Næstu háskólar frá Norðurlöndunum á listanum á eftir Karolinska Institute eru háskólinn í Helskinki sem er í 28. sæti, Uppsalaháskóli í Svíþjóð í 32. sæti og háskólinn í Kaupmannahöfn sem er í sætinu fyrir neðan.
Þá er háskólinn í Lundi í Svíþjóð í 37. sæti og háskólinn í Árhúsum í Danmörku í 46. sæti.
Þrír háskólar frá Noregi komast á listann. Háskólinn í Ósló er þar efstur í 63. sæti.