„Hættu að vera áber­andi, hættu að taka pláss“

Hópur Hagaskóla í Skrekk.
Hópur Hagaskóla í Skrekk. mbl.is/Golli

Atriðið „Elsku stelpur“ sem bar sigur úr býtum í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna á síðasta ári, var ekki gert til þess að vinna keppnina, heldur var markmiðið að ná til flestra unglinga. Með atriðinu vildu höfundar þess fanga sameiginlega tilfinningu kvenna frá mismunandi sjónarhornum og að mati Unu Torfadóttur, höfundar ljóðsins í atriðinu sýnir sigur atriðsins hversu „mainstream“ femínismi er orðinn.

Þetta kom fram í erindi Unu á málþingi sem haldið var í dag af nemendum í viðburða- og verkefnastjórnun á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Yfirskrift málþingsins var  „Ef þú ekki tottar, þú dagar upp og drepst!“ en það var um kynhegðun, klámvæðingu og jafnréttisbaráttu ungs fólks.

Vildu fanga sameiginlega tilfinningu

„Hvernig berjumst við gegn einhverju jafn rótgrónu og feðraveldinu og hvernig ökum við niður kerfi sem hefur verið til alltaf?“ spurði Una í upphafi erindis síns og bætti við að atriðið hafi orðið til með því markmiði að koma hreyfingu á samfélagið.

Með atriðinu vildu stúlkurnar í hópnum fanga sameiginlega tilfinningu kvenna frá mismunandi sjónarhornum. „Við tölum um stelpuna sem málar sig of mikið, stelpuna sem talar of lítið og stelpuna sem „talar alltof fokking mikið,“ sagði Una. „Við deilum allar sömu tilfinningunni þó við séum ólíkar og við vildum fá stelpur til þess að tengja og átta sig á að engin okkar er ein. Við vildum líka fá stráka til að reyna að skilja þessa tilfinningu.“

Ekki kallaðar hórur í kæruleysi

Una sýndi myndband af atriðinu og uppskar það mikið lófaklapp eftir á. Fór hún í gegnum nokkrar línur í ljóðinu og útskýrði þær fyrir áheyrendum og byrjaði á fyrstu línu ljóðsins:

„Ég var tíu ára þegar ég var fyrst kölluð hóra
Þá skildi ég ekki af hverju, núna skil ég.“

„Þessi lína, fyrsta línan, er svo mikilvæg,“ sagði Una. „Hún setur tóninn og gerir það svo skýrt að við erum komnar á svið til þess að gera eitthvað alvöru.“

Að sögn Unu er seinni hluti línunnar, „Þá skildi ég ekki af hverju, núna skil ég“ kjarni málsins.

„Þetta snýst um að opna augu stelpna. Nú getur þú líka skilið öll þessi skipti sem þér fannst þú vera niðurlægð og í lægri stöðu en skildir ekki af hverju. Nú veistu að þetta er feðraveldið,“ sagði Una og bætti við að línan hafi verið sögð kæruleysislega af einum af þátttakendum atriðisins á fundi. Að sögn Unu kom það henni ekki á óvart að fyrrnefnd stúlka hafi fyrst verið kölluð hóra aðeins tíu ára gömul.

„Þetta kom mér ekkert á óvart, ekki neitt, en ég veit að það eru strákar og karlar sem búast ekki við þessu og það er svo mikilvægt að þeir heyri þetta. Tíu ára strákur sem notar þetta orð bara til að testa mörkin og prófa ný orð gleymir þessu strax en við munum eftir þessu,“ sagði Una. „Við erum samt ekki kallaðar hórur í kæruleysi heldur er markvisst verið að niðurlægja okkur.“

„Hættu að vera áberandi, hættu að taka pláss“

Önnur lína sem Una kafaði í í erindinu var:

„...málaðu þig meira, málaðu þig minna
málaðu þig minni.“

„Þessi lína sýnir þessi tvöföldu skilaboð. Maður veit aldrei hvort maður á að gera. Ég vil samt ekki meina að skilaboðin séu óskýr eða tvöföld, þau eru bara ein,“ sagði Una og hélt áfram: „Hættu að vera áberandi, hættu að taka pláss.“ Að sögn Unu eiga stúlkur bara að „falla akkúrat í miðjuna og vera fullkomnar fyrir feðraveldið.“

„Ef maður málar sig of lítið er sagt við mann „Djöfull ertu ljót“ en ef maður málar sig of mikið er maður drusla að kalla á athygli. Maður verður að falla í miðjuna, það eru skilaboðin.“

„Á hverju á ég að passa mig?“

„Var­ast skal að klæðast of flegn­um bol­um eða kjól­um,

Vegna þess að húðin á fimmtán ára stelp­um gef­ur of mikið í skyn“  var næsta lína.

Að sögn Unu snýst hún um viðmið á balli Samfés sem hefur nú verið tekin niður. „Ég er mjög ánægð með það en brjáluð að þau hafi verið til staðar í fyrsta lagi,“ sagði Una.

Þegar að maður heyrir „varast skal að klæðast“ spyr maður á hverju er ég að passa mig? Á hverju er ég að varast? Því húðin á 15 ára stelpum gefur of mikið í skyn,“ sagði Una og bætti við að þetta væri samfélagið sem við lifðum í og einfaldlega skilaboðin sem við fáum.

Una á málþinginu í morgun.
Una á málþinginu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sama um möguleg mínusstig

 „Þegar ég er að rífast við bekkjarbróður minn sem hagar sér eins og hálfviti segja kennararnir „Una mín, þú veist betur ekki láta hann ná til þín“,“ sagði Una til að útskýra næstu línu:

„Hættu þessu, þú veist bet­ur
þú hef­ur ekk­ert alltaf rétt fyr­ir þér‘“

„Það er alltaf verið að segja okkur að við vitum betur en um leið og við förum að tala eins og við vitum betur þá er okkur sagt þú hefur ekki alltaf rétt fyrir þér,“ sagði Una. „Þú veist betur þýðir ekki þú skalt tala meira heldur þú skalt ekki reyna þetta,“ bætti hún við.

„...ekki fokk­ing blóta!“

Við vissum að við gætum fengið möguleg mínusstig fyrir að blóta í Skrekk,“ útskýrði Una. „Við hugsuðum okkur um og sögðum bara „fokk it“,“ bætti hún við og margir hlógu í salnum.

Þurfa að lifa við tvöföld skilaboð

Þú veist hvað ger­ist
ef þú sýn­ir aðeins of mikið.“

Að sögn Unu var með þessari línu tekið á nauðgunarmenningu. „Það er viðkvæmt mál sem við vildum tala um en ekki svo að það yrði óþægilegt fyrir þolendur,“ sagði Una. Var ákveðið að segja ekki orðið nauðgun en að mati Unu þurfti ekki að segja það. „Þú veist hvað ger­ist
ef þú sýn­ir aðeins of mikið“ eru sterk skilaboð og það vita allir um hvað við erum að tala. Það er nóg að segja það bara og þá er eitthvað að.“

„...og í guðana bæn­um ekki senda hon­um ‘mynd­ir’
Því þú, þín brjóst, þinn lík­ami og allt sem þú ert
er skít­ugt og ljótt og bannað
og ekki til að deila með öðrum“

Að sögn Unu var þarna verið að tengja við nektarmyndir. „Stelpum og konum er sagt að líkamar þeirra séu óviðeigandi þegar við setjum okkur sjálfar í kynferðislegt samhengi en ef feðraveldið gerir það eigum við bara að vera til í það,“ sagði Una og bætti við að stúlkur þyrftu að lifa við tvöföld skilaboð. „Enginn má sjá minn líkama en ég á hann ekki sjálf. Hann er fyrir feðraveldið og ég á bara að bíða eftir að vera beðin um að sýna mig,“ sagði Una.

„Það getur enginn stoppað þetta“

„Þið horfið upp á sviðið og sjáið ekki stráka
og ein­hverj­ir hugsa “hvar er jafn­réttið í þessu?”
en við vilj­um vita hvar er jafn­réttið í öllu?
Hvar eru kon­ur í heim­in­um yfir höfuð?
Það eru kon­ur hérna, á þessu sviði, núna,
en sum­ir þurfa alltaf að skima eft­ir strák­um“

Að sögn Unu fann hópurinn á bakvið atriðið svo sannarlega fyrir þrýstingi um að strákar ættu að vera í atriðinu líka. „Það var spurning um að þetta væri atriði um jafnrétti en engir strákar með okkur. En það að fólk brjálist yfir því að það séu ekki strákar með í femínísku jafnréttisatriði sýnir hvað það er mikil þörf á því,“ sagði Una og bætti við að með því að ræða það í ljóðinu var verið að bregðast við fyrirfram gagnrýni á atriðið.

„...þú get­ur ekki stoppað það sem þú veist að er að koma,“ var síðasta línan sem Una greindi í ljóðinu og að hennar sögn hennar uppáhalds.

 „Þetta er baráttulína sem er svo sigurviss,“ sagði Una. „Hún biðst ekki afsökunar á baráttunni heldur segir við þá sem reyna að standa í vegi fyrir okkur að það sé ekki hægt, það getur enginn stoppað þetta, þetta er of stórt.“

Hluti af stærri hugmynd

Una sagði það hafa verið magnaða upplifun að vinna Skrekk með atriðinu. „Það var ótrúlegt að finna fyrir því að femínism væri orðinn nógu „mainstream“ til þess að geta unnið Skrekk.“

Sagði hún það þó ótrúlega auðvelt að gleyma sér í sigurvímu en þá þurfi að minna sig á að baráttan sé ekki búin. „Slagurinn er ekki búinn, hvorki hér né annarsstaðar,“ sagði Una. „Jafnrétti hefur ekki verið náð neins staðar og það snýst um það í stóra samhenginu. Svo megum við aldrei gleyma þeim sem á undan okkur komu og þeim sem eru að slást með okkur á öðrum vígstöðum.“

Sagði Una að ungar stúlkur verði einfaldlega að nýta sér Skrekk sem vettvang og hvert einasta verkefni til þess að berjast fyrir því að hlustað sé á konur. „Þetta hafði meiri áhrif en við hefðum getað ímyndað okkur en atriðið er partur af stærri hugmynd sem enginn getur eignað sér eða stoppað.“

Una sagði það hafa verið magnaða upplifun að vinna Skrekk …
Una sagði það hafa verið magnaða upplifun að vinna Skrekk með atriðinu. „Það var ótrúlegt að finna fyrir því að femínism væri orðinn nógu „mainstream“ til þess að geta unnið Skrekk.“ mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka