Vill nýjan spítala á Vífilsstöðum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að að stjórnvöldum beri að bregðast við tilboði Garðabæjar um að ráðast í byggingu nýs Landspítala á Vífilsstöðum. Sigmundur segir ómögulegt að segja til um hversu marga áratugi í viðbót bútasaumsaðferðin við Hringbraut myndi taka.

Sigmundur spyr í pistli sem hann skrifar á heimasíðu sína: „Ef það er möguleiki á að byggja nýjan flottan Landspítala þar sem allt er glænýtt og í samræmi við þarfir nútímaheilbrigðisþjónustu, hafa hann á góðum stað í fallegu umhverfi, skipuleggja spítalann þannig að hann virki sem öflug heild og gera þetta allt hraðar, hagkvæmar og betur en áður var talið. Er þá ekki rétt að skoða það?“

Hann vísar í viðtal sem birtist í Morgunblaðinu í dag við Gunnar Einarsson, bæjarstjóra Garðabæjar, sem segir það sé „arfa­vit­laust“ að staðsetja nýtt hátæknisjúkra­hús við Hring­braut. Víf­ilsstaðir í Garðabæ hafa verið nefnd­ir sem ákjós­an­leg staðsetn­ing fyr­ir nýtt há­tækni­sjúkra­hús.

„Að mínu mati ber stjórnvöldum að bregðast við þessu tilboði Garðabæjar, taka því fagnandi og skoða hvort ekki sé best, í ljósi allra aðstæðna að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur,“ skrifar Sigmundur Davíð.

Þá segir Sigmundur, að Gunnar hafi lýst því yfir með afdráttarlausum hætti í viðtalinu að bærinn væri reiðubúinn í samstarf við stjórnvöld um byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði.

„Bæjaryfirvöld í Garðabæ eru tilbúin til að liðka fyrir málinu á ýmsan hátt þ.a. það geti gengið hratt og vel fyrir sig. Mér finnst ekki hægt að líta framhjá þessum kosti nú þegar bæjarstjórinn hefur stigið fram með þeim hætti sem hann gerði,“ skrifar Sigmundur. 

Tveir kostir

Forsætisráðherra fer ítarlega yfir núverandi stöðu málsins og þá kosti sem hafa verið á borðinu. Hann segir í lok pistilsins að það sé hugsanlegt að valið standi á milli eftirfarandi kosta:

  1. Áframhaldandi óljós, hægvirkur og óhagkvæmur bútasaumur við Hringbraut. Endalaus barátta við alkalískemmdir, myglu, gamalt lagnakerfi og úrelta tækni í tugum bygginga og við að tengja það gamla við nýbyggingar til að láta allt virka sem heild. Rannsóknarstörf, kennsla, aðgerðir, sjúkrahússlega veiks fólks og aðrar lækningar færu fram á meðan loftborarnir hamast fyrir utan og grjótinu er mokað í vörubíla. Eftir stendur svo þyrping ólíkra gamalla kassa og nýrra stærri grárra kassa. Þyrping sem stendur utarlega á nesi sem tengt er restinni af höfuðborgarsvæðinu með götum þar sem umferðarteppur eru regla fremur en undantekning.

  2. Glænýr heildstæður hátæknispítali, hannaður til að virka sem ein heild og veita umgjörð um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Fallegt hús að innan sem utan á jaðri byggðarinnar, umkringt dásamlegri náttúru og útivistarsvæðum. Húsið mætti byggja hratt með lágmarkstruflun á framkvæmdum og lágmarkstruflun fyrir borgarbúa og fjármagna verkefnið að miklu leyti með sölu á eignum við Hringbraut. Eignum sem ganga svo í endurnýjun lífdaga með nýtingu sem hentar svæðinu og styrkja og vernda miðborgina.

Rétta Vatnsmýrin

„Væri ekki óábyrgt að velta þessu ekki fyrir sér á þessum tímapunkti, nú þegar ljóst er að Vífilsstaðaleiðin er fær? Það eru varla rök í málinu að búið sé að eyða hundruðum milljóna í að undirbúa mistök og þess vegna þurfi að klára að gera mistökin.

Sunnan við Vífilsstaðatúnin er lítil mýri sem heitir Vatnsmýri. Mér sýnist allt benda til að rétt sé að byggja nýjan spítala við Vatnsmýri en það sé gríðarlega mikilvægt að það sé rétta Vatnsmýrin,“ skrifar ráðherra ennfremur.

Það væri ánægjulegt ef þið væruð til í að kíkja á þetta stutta myndband og svo þessa grein...

Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on 11. mars 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert