Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að að stjórnvöldum beri að bregðast við tilboði Garðabæjar um að ráðast í byggingu nýs Landspítala á Vífilsstöðum. Sigmundur segir ómögulegt að segja til um hversu marga áratugi í viðbót bútasaumsaðferðin við Hringbraut myndi taka.
Sigmundur spyr í pistli sem hann skrifar á heimasíðu sína: „Ef það er möguleiki á að byggja nýjan flottan Landspítala þar sem allt er glænýtt og í samræmi við þarfir nútímaheilbrigðisþjónustu, hafa hann á góðum stað í fallegu umhverfi, skipuleggja spítalann þannig að hann virki sem öflug heild og gera þetta allt hraðar, hagkvæmar og betur en áður var talið. Er þá ekki rétt að skoða það?“
Hann vísar í viðtal sem birtist í Morgunblaðinu í dag við Gunnar Einarsson, bæjarstjóra Garðabæjar, sem segir það sé „arfavitlaust“ að staðsetja nýtt hátæknisjúkrahús við Hringbraut. Vífilsstaðir í Garðabæ hafa verið nefndir sem ákjósanleg staðsetning fyrir nýtt hátæknisjúkrahús.
„Að mínu mati ber stjórnvöldum að bregðast við þessu tilboði Garðabæjar, taka því fagnandi og skoða hvort ekki sé best, í ljósi allra aðstæðna að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur,“ skrifar Sigmundur Davíð.
Þá segir Sigmundur, að Gunnar hafi lýst því yfir með afdráttarlausum hætti í viðtalinu að bærinn væri reiðubúinn í samstarf við stjórnvöld um byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði.
„Bæjaryfirvöld í Garðabæ eru tilbúin til að liðka fyrir málinu á ýmsan hátt þ.a. það geti gengið hratt og vel fyrir sig. Mér finnst ekki hægt að líta framhjá þessum kosti nú þegar bæjarstjórinn hefur stigið fram með þeim hætti sem hann gerði,“ skrifar Sigmundur.
Forsætisráðherra fer ítarlega yfir núverandi stöðu málsins og þá kosti sem hafa verið á borðinu. Hann segir í lok pistilsins að það sé hugsanlegt að valið standi á milli eftirfarandi kosta:
„Væri ekki óábyrgt að velta þessu ekki fyrir sér á þessum tímapunkti, nú þegar ljóst er að Vífilsstaðaleiðin er fær? Það eru varla rök í málinu að búið sé að eyða hundruðum milljóna í að undirbúa mistök og þess vegna þurfi að klára að gera mistökin.
Sunnan við Vífilsstaðatúnin er lítil mýri sem heitir Vatnsmýri. Mér sýnist allt benda til að rétt sé að byggja nýjan spítala við Vatnsmýri en það sé gríðarlega mikilvægt að það sé rétta Vatnsmýrin,“ skrifar ráðherra ennfremur.