Viðskipti Glitnis með eigin bréf fólu í sér langvarandi, stórfellda og ólögmæta íhlutun í gangverki verðbréfamarkaðarins þannig að gengi hlutabréfa Glitnis stjórnaðist ekki af markaðslögmálum. Var genginu handstýrt af starfsmönnum bankans og uppsöfnuð bréf svo seld áfram til valinna viðskiptavina, m.a. stjórnenda bankans, þar sem viðskiptin byggðust á blekkingum og sýndarmennsku til að geta haldið áfram með markaðsmisnotkunina. Þetta kemur fram í ákæru embættis héraðssaksóknara í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis sem ákært var fyrir í vikunni.
Deild eigin viðskipta Glitnis kom á tímabilinu 1. júní 2007 til 26. september 2008 að viðskiptum í meira en helmingi tilfella þegar um var að ræða kaup á bréfum í bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni. Á sama tíma seldi deildin aðeins 1,2% af veltunni á sama hátt en meirihlutinn var seldur í stórum utanþingsviðskiptum til valinna viðskiptavina þar sem bankinn sjálfur fjármagnaði viðskiptin.
Þeir sem eru ákærðir í málinu eru Lárus Welding, fyrrum bankastjóri, fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Fyrir markaðsmisnotkun eru svo ákærðir þeir Jóhannes Baldursson, fyrrum framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og Jónas Guðmundsson, Valgarð Már Valgarðsson og Pétur Jónasson, sem allir voru starfsmenn eigin viðskipta bankans.
„Með þessum umfangsmiklu kauptilboðum og kaupum, en óverulegu magni sölutilboða og sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum komu ákærðu ýmist í veg fyrir eða hægðu á lækkun á verði hlutabréfa í Glitni og mynduðu þannig gólf,“ segir þar. Voru viðskiptin sérstaklega mikil í lokunaruppboðum, en slíkt hefur áhrif á dagslokaverð bréfanna. Eru viðskiptin með eigin bréf sögð hafa verið umfangsmikil og kerfisbundin.
Málinu svipar mikið til markaðsmisnotkunarmáls Kaupþings sem rekið var fyrir héraðsdómi í fyrra. Í málunum er bæði tekið á svokallaðri kaup- og söluhlið á meðan svipuðu máli hjá Landsbankanum var skipt upp í markaðsmisnotkunarmál (kauphlið) og Ímon-málið (söluhlið).
Á kauphliðinni eru starfsmenn bankans sagðir hafa keypt hlutabréf í bankanum sjálfum í miklum mæli og þannig mætt umframframboði bréfa á markaðinum og þannig passað upp á að gengi bréfanna lækkaði eða lækkaði of hratt.
Á söluhliðinni er aftur á móti ákært fyrir sölu bréfanna af bók Glitnis til fjórtán starfsmanna bankans fyrir samtals 6,77 milljarða sem bankinn fjármagnaði að fullu. Með því færðist áhætta af viðskiptum með bréfin ekki frá bankanum, en komið var í veg fyrir að eignarhlutur bankans færi yfir 10% í sjálfum sér eða yfir 5% flöggunarmörk. Einu veðin fyrir lánunum voru bréfin sjálf og þá kemur fram í ákærunni að í lánasamningum hafi ekki verið nein ákvæði um veðköll færu bréfin í Glitni að lækka. Með sölu bréfanna var hægt að halda áfram að kaupa bréf á kauphliðinni án þess að hafa áhyggjur af flöggunarskyldu eða að fara yfir lögbundið hámark.
Í fyrsta kafla ákærunnar eru Jónas, Valgarð og Pétur ákærðir fyrir að hafa framkvæmt markaðsmisnotkun að undirlagi Lárusar og Jóhannesar með því að hafa með umfangsmiklum og kerfisbundnum hætti átt viðskipti með bréf bankans og á fyrrnefndu tímabili keypt 4,78 milljarða bréfa a þeim 9,5 milljörðum sem átt var viðskipti með í pöruðum viðskiptum. Nam þetta 50,2% af heildarveltu tímabilsins. Á móti seldu þeir 117 milljón hluti, eða 1,2% af veltunni í slíkum viðskiptum.
Í öðrum og þriðja kafla ákærunnar er aðeins Lárus ákærður, en hann er ákærður fyrir markaðsmisnotkun með því að hafa komið á viðskiptum við starfsmennina fjórtán, en sala á bréfum til nýstofnaðra félaga í þeirra eigu fór fram dagana 15. og 16. maí árið 2008. Samtals voru seldir 393,4 milljón hlutir og voru kaupin fjármögnuð að fullu af bankanum sem bar þar með fulla markaðsáhættu.
„Þar sem engar aðrar tryggingar voru fyrir hendi en hinir seldu hlutir, og voru viðskiptin, sem byggðust á blekkingum og sýndarmennsku, þannig líkleg til að gefa eftirspurn eftir hlutunum í bankanum ranglega og misvísandi til kynna,” segir í ákærunni.
Fyrri daginn voru bréf seld til sex framkvæmdastjóra bankans og keyptu félög þeirra allra bréf fyrir rúmlega 790 milljón krónur hvert, utan eins sem keypti fyrir tæplega 510 milljónir. Félögin voru í eigu Einars Arnar Ólafssonar, framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs, Magnúsar Arnar Arngrímssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, Rósants Más Torfasonar, fjármálastjóra, Vilhelms Más Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar og viðskiptaþróunar, Eggerts Þórs Kristóferssonar, framkvæmdastjóra eignastýringar og Jóhannesar Baldurssonar sem er ákærður í málinu. Námu heildarkaup þeirra tæplega 4,5 milljörðum króna.
Jóhannes og Magnús hafa báðir áður komið við sögu í öðrum dómsmálum tengdum hruninu, en Jóhannes fékk 3 ára fangelsi í Hæstarétti í svokölluðu BK-44 máli og 2 ára dóm í héraðsdómi í Stím-málinu. Magnús hlaut í BK-44 málinu 2 ára dóm, en hann er auk þess ákærður í Aurum málinu sem fer fyrir héraðsdóm á ný núna í apríl. Þá hefur komið fram að Rósant samdi sig frá ákærum í Aurum-málinu þar sem hann var til rannsóknar.
Seinni daginn áttu átta aðrir starfsmenn bankans í samskonar viðskiptum og keyptu félög þeirra bréf í bankanum fyrir samtals 2,25 milljarða. Eigendur félaganna voru Ingi Rafnar Júlíusson, fyrrum forstöðumaður verðbréfamiðlunar og Magnús Pálmi Örnólfsson, yfirmaður eigin viðskipta bankans. Keyptu félög þeirra fyrir 519 milljónir hvort. Félag Rúnars Jónssonar, keypti fyrir 346 milljónir. Eigendur þeirra fimm félaga sem eftir voru keyptu fyrir 173 milljónir hvert, en eigendur þess voru Bjarni Jóhannesson, viðskiptastjóri, Elmar Svavarsson, starfsmaður markaðsviðskipta, Ari Daníelsson, framkvæmdastjóri Glitnis í Lúxemborg, Friðfinnur R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri millibankamarkaða og Stefán Sigurðsson, starfsmaður samskiptasviðs bankans og seinna yfirmaður eignastýringar og nú forstjóri Vodafone.
Elmar hefur áður hlotið 4 ára dóm fyrir aðild sína að BK-44 málinu og þá er Bjarni ákærður í Aurum málinu. Friðfinnur fékk 12 mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir innherjasvik þegar hann seldi bréf sín í Glitni árið 2008 og Magnús Pálmi hefur líkt og Rósant samið sig frá ákæru en í hans tilfelli var það í Stím-málinu þar sem hann hafði stöðu grunaðs manns.
Vekur það athygli að Magnús er ekki meðal ákærðu í þessu máli, en hann var sem fyrr segir yfirmaður deildar eigin viðskipta Glitnis. Í málinu eru bæði undirmenn hans (Pétur, Jónas og Valgarð) ákærðir sem og yfirmaður hans sem var Jóhannes. Í fyrri markaðsmisnotkunarmálum bæði Kaupþings og Landsbankans voru forstöðumenn deildar eigin viðskipta í bæði tilfellin ákærðir og fundnir sekir fyrir þátt sinn í málunum. Tekið skal fram að aðeins hefur verið dæmt í Kaupþingsmálinu í héraði. Mun væntanlega koma í ljós í þessu máli hvort að Magnús hafi einnig fengið réttarvernd í þessu máli.
Í þriðja og síðast hluta ákærunnar er Lárus svo ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa stefnt fjármunum bankans í hættu og farið út fyrir lánaheimildir sínar þegar lánveitingar til félaganna fjórtán voru samþykkt. Kemur fram í ákærunni að allir ákærðu hafi haft hagsmuni af því að halda verði bréfanna uppi. Allir áttu þeir hlut í bankanum eða voru með kaupréttarsamning, þó í mismiklum mæli. „Ákærðu höfðu ríka hagsmuni af því að verð bréfanna lækkaði ekki eða lækkaði sem allra minnst,“ segir í ákærunni.
Er háttsemi þeirra sögð hafa haft langvarandi, stórfellda og ólögmæta íhlutun í gagnverk verðbréfamarkaðarins sem leiddi til þess að gengi hlutabréfa Glitnis stjórnaðist ekki af markaðslögmálum. „Verðmyndun hlutabréfanna var handstýrt af ákærðu Lárusi, Jóhannesi, Jónasi, Valgarði og Pétri og fjárfestar, kröfuhafar, stjórnvöld og samfélagið í heild blekkt,” segir í ákærunni.
Eins og fyrr segir voru kaup deildar eigin viðskipta í sjálfvirkum pörunarviðskiptum langt umfram söluna á sama vettvangi. Á ákærutímabilinu voru nettó kaup umfram sölu 4,665 milljarðar hluta. Salan til starfsmanna bankans sem ákært er fyrir nam hins vegar aðeins um 393 milljónum hluta.
Í ákærunni kemur fram að félagið hafi á tímabilinu sem ákæran nær til losað sig við 74% af þessum bréfum í 10 öðrum viðskiptum til valdra viðskiptavina, sem í flestum tilfellum hafi verið boðið að kaupa bréf gegn fullri fjármögnun og stundum með því að skaðleysi yrði tryggt.
Eru þetta 640 milljón hluta sala til Stím í nóvember 2007, en áður hefur verið dæmt í því máli. Voru viðskiptin að stærstum hluta fjármögnuð með láni frá bankanum sjálfum. Í sama mánuði seldi bankinn BK-44 150 milljón hluti sem voru að fullu fjármagnaðir af bankanum. Einnig hefur verið dæmt í því máli.
Í desember 2007 seldi Glitnir svo Salt Investments 341 milljón hluti, FS7 101 milljón hluti og Langflugi 135 milljón hluti. voru viðskiptin að fullu fjármögnuð með lánum frá bankanum. Í febrúar 2008 seldi bankinn svo IceProperties 260 milljón hluti og Rákungi 297 milljón hluti. Sem fyrr voru kaupin að fullu fjármögnuð af bankanum.
Í september 2008 skiptu Glitnir og Landsbankinn á bréfum, en Glitnir seldi Landsbankanum 462 milljón hluti í Glitni fyrir 3,67 milljarða yfir 14 daga tímabil. Á sama tíma seldi Landsbankinn Glitni bréf í Landsbankanum fyrir 3,66 milljarða. Í sama mánuði seldi Glitnir Salt Financials 370 milljón hluti og S.Á. Bollasyni 297 milljón hluti og voru þau viðskipti að fullu fjármögnuð með lánum frá bankanum.
Samtals voru þessi viðskipti og salan til starfsmannanna fjórtán upp á 3,45 milljarði hluta af þeim 4,66 milljörðum hluta sem deild eigin viðskipta keypti á ákærutímabilinu. Segir í ákærunni að þau hafi farið fram í fáum og stórum sölum sem höfðu lítil sem engin áhrif á verðmyndun á markaði gagnstætt því sem hefði gerst ef hlutabréfin hefðu verið seld í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. „Þessi utanþingsviðskipti voru þannig bæði afleiðing stórfelldrar og kerfisbundinnar markaðsmisnotkunar ákærðu og forsenda þess að ákærðu gætu haldið henni áfram,” segir í ákærunni.
Að lokum er vitnað í nýlegan dóm Hæstaréttar í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans. Er þar bent á að viðskipti deildar eigin viðskipta með bréf í bankanum sjálfum og að kalla það óformlega viðskiptavakt sé ólögleg. Var slík skilgreining stór hluti af vörn bæði í markaðsmisnotkunarmálum Landsbankans og Kaupþings og sögðu verjendur og ákærðu þá að slík vakt hafi verið á vitorði allra á markaðinum og ekkert ólöglegt við hana.
Ákæruna í heild sinni má finna hér að neðan.