Almenn lögregla vopnaðist

Mynd úr safni - sérsveit ríkislögreglustjóra.
Mynd úr safni - sérsveit ríkislögreglustjóra. mbl.is/Styrmir Kári

Sex almennir lögreglumenn og einn sérsveitarmaður úr sérsveit ríkislögreglustjóra voru á vakt þegar tilkynnt var um skothvelli í fjölbýlishúsi í Naustahverfi á Akureyri. Var þetta um klukkan hálftvö í nótt. Einn hefur verið handtekinn.

Lögreglan kallaði þegar út auka mannskap, umkringdi húsið og lokaði fyrir umferð í nærliggjandi götum. Þá var einnig haft samband við þá íbúa sem búa næst þeim stað þaðan sem skothvellirnir heyrðust.  

Samkvæmt heimildum mbl.is voru almennir lögreglumenn vopnaðir skammbyssum á vettvangi en samkvæmt vinnureglum frá ríkislögreglustjóra þurfa yfirmenn að gefa almennum lögreglumönnum sérstaka heimild til að vopnast. Voru þeir einnig búnir hlífðarfatnaði.

Lögreglan á Akureyri óskaði jafnframt eftir frekari aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra og var, samkvæmt heimildum mbl.is, flogið með sjö sérsveitarmenn norður í þyrlu Landhelgisgæslu Íslands. Þyrlan var kölluð út klukkan 02:40.

Skömmu eft­ir komu sér­sveit­ar, eða um klukk­an 5 í nótt, var karlmaður hand­tek­inn á vett­vangi og færður í fanga­geymsl­ur lög­regl­unn­ar á Ak­ur­eyri. Verður hann yf­ir­heyrður síðar í dag.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug svo aftur með sérsveitarmennina til Reykjavíkur í morgun og lenti hún við flugskýli Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli klukkan 07:18.

Rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á Ak­ur­eyri fer nú með rann­sókn máls­ins, en ekki er unnt að greina frek­ar frá því á þess­ari stundu. Búist er við að lögreglan sendi frá sér tilkynningu síðar í dag vegna málsins.

Fyrri frétt mbl.is:

Byssumaður handtekinn á Akureyri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka