Um klukkan hálftvö í nótt barst lögreglunni á Akureyri tilkynning um að skothvellir hefðu heyrst frá íbúð fjölbýlishúss í Naustahverfi. Í kjölfarið hófst umfangsmikil lögregluaðgerð og fóru lögreglumenn og sérsveit ríkislögreglustjóra, sem staðsett er á Akureyri, meðal annars á vettvang. Einn hefur verið handtekinn.
Þeir lögreglumenn sem fyrstir mættu á vettvang lokuðu meðal annars nærliggjandi götum og höfðu samband við íbúa í hverfinu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri var óskað eftir frekari aðstoð vegna málsins og voru sérsveitarmenn frá Reykjavík einnig kallaðir til. Samkvæmt heimildum mbl.is var flogið með sjö sérsveitarmenn norður með þyrlu Landhelgisgæslu Íslands, en þyrlan var kölluð út klukkan 02:40.
Skömmu eftir komu sérsveitar, eða um klukkan 5 í nótt, var maður handtekinn á vettvangi og færður í fangageymslur lögreglunnar á Akureyri. Verður hann yfirheyrður síðar í dag.
Er frétt þessi er skrifuð er þyrla Landhelgisgæslunnar rétt ókomin til Reykjavíkur með sérsveitarmennina sem sendir voru til Akureyrar í nótt. Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri fer nú með rannsókn málsins, en ekki er unnt að greina frekar frá því á þessari stundu.