Lögreglan á Akureyri hefur nú lokið vettvangsrannsókn í Naustahverfi þar sem tilkynnt var um skothvelli í nótt. Karlmaður á fimmtugsaldri er í haldi lögreglu vegna málsins.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri á maðurinn við andleg veikindi að stríða. Hann mun hafa hleypt af minnst fjórum skotum af haglabyssu sem hæfðu mannlausa bifreið við hús hans og gler við útihurð á nærliggjandi íbúð.
Enginn slasaðist í skotárásinni og ekki er talið að atlagan hafi beinst gegn neinum ákveðnum einstaklingi. Hinn handtekni hefur ekki áður komið við sögu lögreglu vegna viðlíka mála og er talið víst að veikindi hans séu ástæða þess hvernig fór.
Er nú unnið að því að veita manninum viðeigandi heilbrigðisþjónustu, en ekki hefur enn verið hægt að yfirheyra hann. Þá hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri fer með rannsókn málsins.
Tilkynning um að skothvellir hefðu heyrst frá íbúð fjölbýlishússins barst um klukkan hálftvö í nótt. Hófst í kjölfarið umfangsmikil lögregluaðgerð og fóru lögreglumenn og sérsveit ríkislögreglustjóra, sem staðsett er á Akureyri, á vettvang. Almennir lögreglumenn fengu einnig heimild til að bera skotvopn og klæddust þeir hlífðarfatnaði.
Fljótlega var tekin ákvörðun um að óska eftir frekari aðstoð og voru þá meðal annars sjö sérsveitarmenn til viðbótar sendir norður með þyrlu Landhelgisgæslu Íslands. Þyrlan var kölluð út klukkan 02:40.
Maðurinn var handtekinn um klukkan fimm í morgun.
Fyrri fréttir mbl.is: