Fara ekki fram á gæsluvarðhald

Göt eftir haglabyssuskotin sem maðurinn skaut á íbúð nágrannakonu sinnar.
Göt eftir haglabyssuskotin sem maðurinn skaut á íbúð nágrannakonu sinnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lögreglan ætlar ekki að fara fram á gæsluvarðhald yfir andlega veikum manni sem skaut á íbúð nágranna síns á Akureyri á aðfaranótt sunnudags. Kristján Kristjánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að manninum hafi verið komið í viðeigandi úrræði í heilbrigðiskerfinu.

Sérsveitarmenn voru kallaðir út til að bregðast við útkallinu í fjölbýlishúsi við Kjarnagötu í Naustahverfi á Akureyri á aðfaranótt sunnudags. Maðurinn skaut að minnsta kosti fjórum skotum úr haglabyssu á íbúð nágrannakonu sinnar sem var ein heima með tveggja ára dóttur sinni og á kyrrstæðan bíl fyrir utan húsið.

Maðurinn, sem er 44 ára gamall, var handtekinn undir morgun og færður í fangageymslur lögreglunnar. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að ekki verið farið fram á gæsluvarðhald yfir honum.

„Hann fær sína úrlausn hjá heilbrigðiskerfinu. Hann fær bara aðstoð við sínum veikindum,“ segir Kristján í samtali við mbl.is en segist ekki geta tjáð sig nánar um hvar maðurinn verði vistaður.

Íbúunum boðið upp á áfallahjálp

Yfirlögregluþjóninn segir að fjórar íbúðir séu í húsinu þar sem uppákoman átti sér stað. Lögreglumenn hafi rætt við aðra íbúa í húsinu og bent þeim á hvaða aðstoð væri í boði fyrir þá á sviði áfallahjálpar. Kristján segist ekki vita hvort að einhverjir þeirra hafi þegið hana.

Rannsókn málsins er enn í gangi og segir Kristján að enn eigi eftir að taka einhverjar skýrslur af fólki. Hann segist ekki vita hvort að ákæra verði gefin út í málinu í ljósi kringumstæðna en honum þykir það þó ekki ólíklegt.

Engan sakaði í skotárásinni og er ekki talið að hún hafi beinst að neinum ákveðnum einstaklingi. Maðurinn sem var handtekinn hefur ekki komið sögu lögreglu vegna viðlíka mála og er talið víst að veikindi hans séu ástæða þess hvernig fór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert