Tvær konur frá Sri Lanka, sem sterkur grunur leikur á að hafi verið vinnuþrælar í Vík í Mýrdal, fóru úr öskunni í eldinn þegar lögregla fann þær í kjallara í húsi manns sem grunaður er um mansal.
Þeim var boðin vinna hjá Icewear í Vík en gátu ekki þegið hana þar sem þær fengu ekki atvinnuleyfi. Konurnar fengu 5.200 krónur á viku og dvöldu í Kvennaathvarfinu.
Þetta kom fram í Kastljósinu í kvöld en þar ræddi Þóra Arnórsdóttir við Kristrúnu Elsu Harðardóttur, réttargæslumann kvennanna.
Á miðvikudaginn í síðustu viku sneri Hæstiréttur við gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Suðurlands en þar hafði manninum verið gert að sæta varðhaldi til 1. apríl. Ákveðið var að maðurinn skildi frekar sæta farbanni fram að sama tíma.
Kristrún Elsa sagði að lítið hefði tekið við konunum eftir að lögregla fann þær og færði þær úr kjallaranum. „Það sem tekur við þeim sem þolendum er í raun og veru ekki neitt nema ég sem réttargæslumaður þeirra,“ sagði hún.
Kristrún Elsa þurfti, í gegnum lögreglu, að hafa uppi á farsímanúmerum félagsráðgjafa til að tryggja að þeim stæðu einhver úrræði til boða. Félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg ræddi við konuna en þar sem hún var aðeins í því í hjáverkum gat hún ekki hitt þær mjög oft. Þær hafi því verið í lausu lofti í Kvennaathvarfinu.
Kristrún Elsa sagði að til væri fín aðgerðaáætlun fyrir mál sem þessi en hún virki aftur á móti ekki. Henni fylgi ekki fjármagn og neyðarteymi sem á að hefja störf innan sólarhrings frá því að málið kemst upp sé ekki til að hennar viti.
Aðspurð sagði Kristrún Elsa að konurnar hefðu viljað vinna, enda var það ástæða fyrir komu þeirra hingað til lands. Í málum sem þessum eru fórnarlömbin oft að vinna fyrir fjölskyldu í öðru landi og þurfi því að skila einhverju af sér. Höfðu þær miklar áhyggjur af fjölskyldu sinni, sagði Kristrún Elsa. Þá sagði hún konurnar hafa verið mjög meðvirkar og hafi haft miklar áhyggjur af manninum þegar hann dvaldi í gæsluvarðahaldi.
Kristrún Elsa sagðist hafa velt fyrir sér að vekja þegar í stað athygli á stöðu kvennanna í fjölmiðlum en ákvað að senda Ólöfu Nordal innanríkisráðherra erindi fyrst. Fór Krisrún Elsa á fund í innanríkisráðuneytinu og fékk þar jákvæð viðbrögð við erindi sínu. „Þau voru alveg ofboðslega sammála mér um allt sem þurfti að gera,“ sagði hún en fékk aftur á móti svör að haft yrði samband við hana þegar búið væri að skoða málið. Ekki hefur verið haft samband við réttargæslumanninn.
Konurnar ákváðu að lokum að fara úr landi og létu þær Kristrúnu Elsu vita með þriggja daga fyrirvara. Hún hafði þegar í stað samband við lögreglu og gátu konurnar því gefið skýrslu áður en þær fóru. Sagði hún þó að ekki væri hægt að ætlast til þess að allur framburður komi hjá mansalsþolendum á svo skömmum tíma.
Fjórir skjólstæðingar Kristrúnar Elsu sem störfuðu hjá Vonta International í Vík hafa hafið störf hjá Icewear og stóð konunum tveimur einnig til boða vinna. Þær eru aftur á móti frá landi sem er utan EES og því gátu þær ekki þegið boðið.
Þá gagnrýndi Kristrún Elsa niðurstöðu Hæstaréttar og sagði dómarana í málinu ekki hafa gert sér grein fyrir alvarleika málsins.