Fengu 5.200 krónur á viku

Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að …
Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að hafa haldið konunum tveimur í kjallara.

Konurnar tvær sem sterkur grunur leikur á að hafi verið vinnuþrælar í Vík í Mýrdal, eru farnar af landi brott.

Réttargæslumaður þeirra, Kristrún Elsa Harðardóttir, segir að nær ekkert hafi verið gert fyrir þær eftir að lögregla sótti þær, annað en að koma þeim fyrir í Kvennaathvarfinu þar sem þær fengu 5.200 krónur á viku.

Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins

Þar segir einnig að konurnar hafi ekki fengið atvinnuleyfi og hafi því verið settar í enn verri stöðu en þær voru í á meðan á mansalinu stóð.

Uppfært kl. 19.08

Kristrún Elsa sagði í kvöldfréttum RÚV að til væri aðgerðaáætlun vegna mansals sem hún gerði ráð fyrir að sett yrði í gang í máli kvennanna. Í áætluninni sé kveðið á um starfsemi neyðarteymis en það sé ekki til. 

Sagðist Kristrún Elsa hafa velt fyrir sér að vekja þegar í stað athygli á stöðu kvennanna í fjölmiðlum en ákvað að senda Ólöfu Nordal innanríkisráðherra erindi fyrst. Fór Krisrún Elsa á fund í innanríkisráðuneytinu og fékk þar jákvæð viðbrögð við erindi sínu. Hefur hún aftur á móti ekki heyrt frá ráðuneytinu eftir það. 

Kristrún Elsa sagði að konurnar hefðu farið úr landi þar sem þær höfðu ekki atvinnuleyfi hér og framfærsla til þeirra hefði verið afar lág. Þá hafi þær lítinn stuðning fengið. Sagði hún konurnar hafa verið hræddar um fjölskylduna sína og ekki getað skilað því sem þær þurfi til yfirboðara síns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert