Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir að það væri fullkomið ábyrgðarleysi að fresta uppbyggingu húsnæðis fyrir Landspítala við Hringbraut og byrja að huga að nýju húsnæði á Vífilsstöðum í Garðabæ eins og bæjarstjóri Garðabæjar og forsætisráðherra hafa rætt um.
„Ég dreg ekki dul á það að ég er ein af þeim sem styð mjög hraða uppbyggingu nýrra bygginga fyrir sjúkrahúsið. Það hafa lengi verið uppi deildar meiningar um hvar það ætti að vera staðsett. Það hafa ráðherrar úr öllum flokkum yfirfarið staðsetninguna og komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé staðurinn til að byggja á,“ segir Sigríður Ingibjörg.
„Það er ágætt að huga að því hvar á næst að byggja sjúkrahús en núna erum við í þeirri stöðu að það er fullkomið ábyrgðaleysi að slá á frekari frest uppbyggingu húsnæðis fyrir Landspítala. Af hverju ættu allir að vera sammála staðsetningu í Garðabæ? Kemur þá ekki upp krafa um enn betri spítala á enn betri stað?,“ bætir hún við.
Hönnunarvinna vegna uppbyggingar Landspítalans við Hringbraut er framundan en þar eru framkvæmdir engu að síður hafnar á sjúkrahóteli. „Hönnunarvinnan miðar að því að nota hluta af byggingum sjúkrahússins sem nú eru til staðar. Það bráðliggur á því, bæði fyrir öryggi sjúklinga og nútíma læknisfræði, að fá nýjar byggingar. Við erum runnin út á tíma og núna þurfum við að hraða þessu eins og kostur er.“
Frétt mbl.is: Breyta þarf ákvörðuninni
Frétt mbl.is: Vill nýjan spítala á Vífilsstöðum