Miklar hækkanir á verði páskaeggja

Mesta hækkunin er á Freyju páskaeggi nr. 2 sem hefur …
Mesta hækkunin er á Freyju páskaeggi nr. 2 sem hefur hækkað mest hjá Bónus og Krónunni. mbl.is/Styrmir Kári

Páskaeggin sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á þann 9. mars sl. hafa hækkað í verði í öllum verslunum nema Víði frá sambærilegri könnun sem gerð var á sama tíma í fyrra. Verð páskaeggjanna hefur hækkað mikið hvort sem um er að ræða egg frá Nóa, Freyju eða Góu en þau hafa hækkað í verði í öllum verslunum.

Aðeins er lækkun hjá Víði en bæði eggin sem eru verðmerkt og voru til í báðum mælingunum lækka í verði, að því er segir á vef ASÍ.

Þar segir, að mesta hækkunin sé á Freyju páskaeggi nr. 2 sem hefur hækkað mest hjá Bónus og Krónunni, um 21% hjá Bónus úr 453 kr. í 549 kr. og hjá Krónunni úr 454 kr. í 550 kr. um 20% hjá Fjarðarkaupum, 12% hjá Hagkaupum og 5% hjá Iceland.

Páskaeggin frá Nóa Síríus hafa einnig hækkað mikið í verði, sem dæmi hefur páskaegg nr. 2 hækkað um 15% hjá Bónus, Krónunni og Fjarðarkaupum, um 9% í Nettó og Hagkaupum og um 5% hjá Samkaupum-Úrval, en lækkaði í verði hjá Víði um 14%.

Hjá Góu hefur sem dæmi lakkrís páskaegg nr. 4 hækkað um allt að 25% mest hjá Nettó, svo um 15% hjá Samkaupum-Úrval, um 11% hjá Krónunni, um 10% hjá Bónus, um 8% hjá Fjarðarkaupum og um 7% hjá Hagkaupum en minnsta hækkunin er 4% hjá Iceland.

Lægra heimsmarkaðsverð og gengisstyrking skilar sér ekki til neytenda

Heimsmarkaðsverð á hrávörum s.s. sykri og kakóbaunum hefur lækkað frá öðrum ársfjórðungi í fyrra samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þannig hefur heimsmarkaðsverð á sykri lækkað um 7% og verð á kakóbaunum um 5%. Á sama tíma hefur gengið verið að styrkjast; gengisvísitalan um 7,4% og dollarinn um 5,7%.

Þegar þessar niðurstöður eru skoðaðar kemur á óvart að páskaegg sem innihalda að mestu leyti kakóbaunir og sykur séu að hækka í verði eins og raun ber vitni. En verslunin í landinu verður að svara því hvers vegna verð páskaeggjanna sé að hækka á sama tíma og íslenska krónan er að styrkjast og töluverð lækkun er á hráefniskostnaði,“ segir ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert