Samþykktu ekki nýjan spítala við Hringbraut

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég vil fyrst minna háttvirtan þingmann á að það sem samþykkt var vorið 2014 var einmitt ekki að nýr Landspítali yrði byggður við Hringbraut. Það var vissulega upphafleg tillaga, en ekki náðist samstaða um hana vegna þess að menn hafa ólíkar skoðanir á því hvort það sé skynsamleg nálgun. Þess vegna var ákveðið að sammælast frekar um að ráðast í nauðsynlegar endurbætur við Hringbrautina á meðan menn meta aðra kosti.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Árni sagði fréttir berast líkt og undanfarin missei af ófullnægjandi aðstæðum á Landspítalanum. Um helgina hafi slíkar fréttir náð hámarki þegar myndir hafi birst af sjúkrarúmum í bílageymslu sjúkrahússins. Á sama tíma heyrðust fréttir af því að traust á heilbrigðiskerfinu færi minnkandi.

„Það er grafalvarlegt mál, ef tæplega helmingur landsmanna segist nú bera mikið traust til þess og þær trauststölur hafa verið að hrynja. Það er mjög mikilvægt að fólk beri traust til heilbrigðiskerfisins til þess að það leiti sér lækninga í tíma og við þurfum aðstæður sem eru þannig að fagfólk vilji vinna í íslenskri heilbrigðisþjónustu,“ sagði Árni Páll og spurði Sigmund hvernig ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við þessari stöðu.

„Hvað varðar stöðuna núna þá er alveg ljóst að það þarf að halda áfram að bæta í viðhald og viðbætur á Landspítalnum,“ sagði Sigmundur og sagði ríkisstjórnina hafa aukið mjög framlög til Landspítalans. Þannig væri aukningin á milli áranna 2015 og 2016 19 milljarðar króna. það væri mikil breyting frá síðasta kjörtímabili þegar skorið hefði verið niður um 30 milljarða króna. „Núverandi ríkisstjórn hefur algjörlega breytt um kúrs og haldið áfram ár frá ári að efla heilbrigðisþjónustu á Íslandi.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert