„Það virðist vera orðið sjálfstætt og æðisérstakt vandamál að hæstvirtur forsætisráðherra virðist vera kominn með Photoshop í tölvuna sína og virðist verja dálítið miklum tíma í að hanna upp á eigin spýtur alls konar byggingar og hús og reyna að selja okkur hinum það að þetta séu skynsamlegar teikningar og skynsamleg skipulagning.“
Þannig komst Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, að orði í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. Vísaði hann þar til skrifa og skoðana Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um skipulagsmál. Þannig hafi hann bæði kynnt hugmyndir sínar um nýtt sjúkrahús við Efstaleiti í Reykjavík og á Vífilstöðum í Garðabæ. Vísaði hann þar til myndvinnsluforritsins Photoshop.
„Ég er líka með Photoshop í minni tölvu og get vel brokkað hér fram með alls konar teikningar þar sem ég lýsi því yfir að skynsamlegt væri að byggingarnar væru á Bessastaðatúninu, í Elliðaárdal, í Hvassahrauni eða hvar sem er. Það er ekkert mál. En ég kem hér upp til að vekja athygli á því að blessunarlega störfum við ekki svona í pólitík. Við tökum ekki veigamiklar ákvarðanir svona í pólitík,“ sagði Guðmundur.
Þannig væru búið að fara yfir það í 15 ár hvar nýr Landspítali ætti að vera og gera um það í það minnsta fjórar vandaðar greiningar. Niðurstaða þeirra allra væri að best væri að hafa hann við Hringbraut í Reykjavík. Stjórnmálamenn og aðrir yrðu því að láta af hvötum sínum til að vita hvað sé best og viðurkenna að málið hefði verið afgreitt enda um stórt hagsmunamál að ræða.
„Það ríkir neyðarástand í húsnæðismálum spítalans. Það þarf að drífa í þessu. Nú þurfum við að hætta að draga þetta ferli í efa og hefja, eins og raunar er hafið, byggingu nýs spítala við Hringbraut og svo koma því í kring að hæstvirtur forsætisráðherra fái annað forrit í tölvuna sína.“