Icesave málið var stærsta dómsmál EFTA

Carl Baudenbacher dómsforseti fyrir miðju. Frá aðalmeðferð Icesave málsins.
Carl Baudenbacher dómsforseti fyrir miðju. Frá aðalmeðferð Icesave málsins. mbl.is/SMJ

Icesave málið var það stærsta og mikilvægasta sem tekið hefur verið til meðferðar hjá EFTA dómstólnum. Málið var sérstakt fyrir þær sakir að mjög miklir hagsmunir voru í húfi og þá var mikill pólitískur þrýstingur frá Evrópusambandinu, Hollandi og Bretlandi vegna málsins.

Þetta sagði Svisslendingurinn Carl Baudenbacher í Kastljósi í kvöld, en hann hefur verið forseti dómstólsins frá 2003.

Sagði Baudenbacher að allir hefðu sætt sig við niðurstöðu málsins að lokum, en dómurinn var Íslandi í hag. Aðspurður hvort hann hafi fundið fyrir reiði frá einhverjum segir hann að aðeins einu sinni í garðveislu hafi hátt settur embættismaður komið að máli við sig. Baudenbacher segir að hann hafi strax sagt embættismanninum að honum þætti þetta ekki eðlileg samskipti af hans hálfu og þannig hafi því samtali lokið.

Segir hann niðurstöðuna hafa verið mikilvæga fyrir Evrópusambandið þar sem aðildarríkjum þess var dæmt í óhag en allir sættust á niðurstöðuna og að sambandið byggði á lögum og reglum sem allir færu eftir.

Baudenbacher var í viðtalinu spurður út í þróunina í Evrópu og sagði hann að ljóst væri að það væru málefni sem tekist væri á um. Meðal annars flóttamannamálið, en einnig efnahagsmál. Þar væru heldur ekki allir sáttir. Tók hann sem dæmi innistæðutryggingakerfið. Sagðist hann spyrja sig hvort það væri sjálfbært módel fyrir markaðshagkerfi þegar allar innistæður væru tryggðar af innistæðusjóði. Þar væri tekin út sú aðferð að þeir sem ekki gætu staðið sig í samkeppni færu í gjaldþrot. Sagði hann skiptar skoðanir um þetta í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert