Halla Tómasdóttir býður sig fram

Halla Tómasdóttir á heimili sínu í dag.
Halla Tómasdóttir á heimili sínu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Halla Tómasdóttir frumkvöðull og fjárfestir býður sig fram til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hún á blaðamannafundi á heimili sínu í Kópavogi rétt í þessu en þar var mikið fjölmenni saman komið.

Þann 1. desember síðastliðinn var stofnuð síða á Facebook þar sem skorað var á Höllu að gefa kost á sér í embætti forseta. Sagði þar í upplagi að Höllu fylgdi bjartsýni, áræðni og kjarkur. „Eiginleikar sem við þurfum á að halda til að takast á við nútímann og framtíðina.“

Frétt mbl.is: Vilja Höllu á Bessastaði

Hún sagðist þá djúpt snort­in, en ætlaði að gefa sér tíma til að hugsa málið og ræða það við sína nán­ustu áður en hún segði af eða á með fram­boð.

Hver er Halla Tómasdóttir?

Að því er fram kemur á áskorunarsíðunni er Halla uppalin á Kársnesinu í Kópavogi, þar sem hún býr nú með eiginmanni sínum, Birni Skúlasyni. Björn er viðskiptafræðingur og rekur verslun Nóatúns í Austurveri og eiga þau saman tvö börn.

Þá segir einnig að Halla sé ættuð af Ströndum þar sem móðir hennar, Kristjana Sigurðardóttir, þroskaþjálfi ólst upp, og úr Skagafirði þar sem faðir hennar, Tómas Björn Þórhallsson, pípulagningameistari og síðar húsvörður við Sunnuhlíð er alinn upp.

Halla var skiptinemi í Bandaríkjunum og bjó þar í tíu ár. Þá lærði hún viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og mannauðsmál og lauk alþjóðlegri MBA gráðu með áherslu á alþjóðleg samskipti og tungumál.

Halla tilkynnti um framboð sitt að viðstöddum fjölmiðlum, fjölskyldu og …
Halla tilkynnti um framboð sitt að viðstöddum fjölmiðlum, fjölskyldu og stuðningsmönnum. mbl.is/Árni Sæberg

Stofnaði Auði Capital árið 2007

Á ferli sínum hefur Halla komið víða við. Meðal annars kom hún að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík og leiddi verkefnið „Auður í krafti kvenna“, sem sett var á laggirnar árið 2000 til að efla at­vinnu­sköp­un­ fyrir konur.

Árið 2006 tók hún við stöðu framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs en sagði þar upp störfum ári síðar til að stofna fyrirtækið Auði Capital. 

Árið 2010 var eigið fé Auðar Capital metið á 1,1 milljarð króna og var félagið þá skuldlaust. Hlutur Höllu í félaginu, sem var um 15%, var svo keyptur að mestu árið 2011. Svo fór að Auður Capital sameinaðist félaginu Virðingu í lok sumars 2014.

„Og ekkert virkaði á Íslandi þann dag“

Í fyrirlestri á TED-ráðstefnu árið 2010, þar sem Halla ræddi um hagnýti kvenlegra gilda við fjárfestingar, sagði hún kvennafrídaginn árið 1975 hafa haft mikil áhrif á sig. Þá sagði hún Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands vera sér mikil fyrirmynd.

„Ég vil segja ykkur frá því þegar ég uppgötvaði fyrst að konur skipta máli fyrir efnahag lands og samfélag þess. Ég var sjö ára, 24. október árið 1975. Konur á Íslandi tóku sér frídag, hvort sem það var frá vinnu eða heimilisstörfum þá tóku þær sér frí. Og ekkert virkaði á Íslandi þann dag,“ sagði Halla og uppskar mikil hlátrasköll í salnum.

„Þær þrömmuðu í miðbæ Reykjavíkur og settu málefni kvenna á dagskrá. Og sumir segja að þarna hafi hafist alþjóðleg hreyfing. Fyrir mig var þetta upphafið á langri vegferð. Þennan dag ákvað ég að skipta máli.“

Ætlaði ekki að hafa þjóðina á brjósti

Fimm árum seinna var Vigdís Finnbogadóttir kosin forseti Íslands.

„Einstæð móðir sem hafði látið fjarlægja annað brjóst sitt vegna brjóstakrabbameins. Og á einum kosningafundi ýjaði karlkyns keppinautur hennar um embættið að því að hún gæti ekki sinnt embættinu, hún væri kona, og í raun aðeins hálf kona.“

Þessa nótt sagði Halla að Vigdís hefði unnið kosningarnar.

„Ekki aðeins vegna ömurlegrar hegðunar hans heldur tilsvars síns. Hún sagði; Ég hafði í raun ekki ætlað mér að hafa þjóðina á brjósti. Ég ætla mér að leiða hana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert