Barry Van Tuijl, hollenskur ríkisborgari á fertugsaldri, var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 8 og hálfs árs fangelsi fyrir smygl á eiturlyfjum í húsbíl. Kona hans var sýknuð af ákæru í málinu. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Ríkissaksóknari hafði farið fram á að þau yrðu dæmd í tólf ára fangelsi en í húsbíl þeirra fundust tæplega 210 þúsund MDMA töflur, rúmlega 10 kg. af MDMA mulningi og 34,55 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Maðurinn játaði fyrir dómi að hafa vitað af fíkniefnunum en konan neitaði sök.
Parið kom með Norrænu til Seyðisfjarðar 8. september sl. Þau voru á húsbíl og hafi maðurinn ekið bifreiðinni af ferjunni. Ákveðið va að leita í bifreiðinni og fannst töluvert magn af fíkniefnum við leitina.
Maðurinn hefur frá upphafi játað að hafa vitað af efnunum og sagst vera svokallað burðardýr. Hann hefur hins vegar borið að konan hafi ekki vitað af efnunum. Hún hefur neitað sök frá upphafi.
Með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 1. desember voru þau ákærð fyrir að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 209.473 MDMA töflum, 10.043,93 g af MDMA mulningi og 34,55 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni.