„Það mátti alltaf búast við því að ónæðið yrði mest á meðan unnið yrði við jarðvinnu á norðurlóðinni. Það er stefnt að því að ljúka henni í apríl,“ segir Gunnar Svavarsson, stjórnarformaður Nýs Landspítala ohf.
„Eftir það verður óverulegt ónæði, sérstaklega eftir að ný gata inni á lóðinni verður opnuð 15. júní. Hún verður opnuð áður en sjúkrahótelið verður afhent, sem verður í mars 2017,“ segir Gunnar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Framkvæmdir við nýjan Landspítala við Hringbraut eru samkvæmt tímaáætlun og kostnaðaráætlanir hafa einnig staðist að sögn Gunnars. Undanfarið hefur verið unnið að jarðvegsskiptum við kvennadeild spítalans og gamla spítalann, K-bygginguna.