Tjónið nemur allt að 200 milljónum

Ráðist var að eldinum með því að sprauta vatni að …
Ráðist var að eldinum með því að sprauta vatni að húsinu, en ekki þótti hættunnar vegna vogandi að senda menn þangað inn. mbl.is/Golli

Tjón á húsnæðinu sem kveikt var í við Grettisgötu fyrr í mánuðinum er talið geta numið allt að tvö hundruð milljónum. Þetta segir Kjartan Vilhjálmsson framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM í samtali við mbl.is.

Hann tekur fram að hann geti aðeins upplýst um það tjón sem varð á andlagi trygginga Tryggingamiðstöðvarinnar en ekki annarra félaga. Stærsti hluti tjónsins hafi þó verið á húsinu sjálfu, sem TM vátryggir auk reksturs Réttingaverkstæðis Þórarins sem er í húsinu. 

„Það liggur fyrir að tjónið verður á annað hundrað milljónir,“ segir Kjartan. „En ég á mjög erfitt með að áætla það nákvæmara en það. Við gerum ráð fyrir því núna miðað við það sem við vitum, að þetta verði einhvers staðar á milli 100 og 200 milljónir.“

Húsnæðið er illa leikið eftir eldsvoðann.
Húsnæðið er illa leikið eftir eldsvoðann. mbl.is/Eggert

Ekki tekin ákvörðun um ákæru

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir rannsókn málsins lokið af hálfu lögreglu, en karlmaður á fertugsaldri játaði að hafa kveikt í húsnæðinu fyrr í vikunni.

Í samtali við mbl.is segir hann að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort maðurinn verði ákærður. Ekki hefur enn verið upplýst nákvæmlega hvernig hann kveikti í húsnæðinu þetta mánudagskvöld þann 7. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert